18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

1. mál, fjárlög 1924

Jakob Möller:

Þó að jeg hafi tekið tvisvar sinnum til máls, þá á jeg rjett á að tala einu sinni enn sem framsögumaður sjávarútvegsnefndar, því að meiri hluti hennar á hjer eina brtt., sem honum er ant um og jeg verð að fara nokkrum orðum um, þótt hv. frsm. fjárveitinganefndar hafi líka mælt skörulega með henni. Það er till. um Bjarna Sæmundsson. Háttv. 2. þm. Skagf. (JS) talaði um það, að hjer væri aðallega um að ræða mál vísindalegs eðlis, en það hefði hins vegar lítið praktiskt gildi. Jeg vil nú engan veginn bera það af sjávarútvegsnefndinni, að hún sje vísindalega sinnuð, en hins vegar bera skjöl málsins, sem hv. þingmenn hafa átt kost á að sjá, það greinilega með sjer, að hjer er einmitt jafnframt, og þó miklu fremur, um mjög praktiskt starf og praktiskt gildi að ræða. Vil jeg þar benda á ummæli tveggja erlendra vísindamanna, sem sýna þetta vel. Sömuleiðis má minna á meðmælabrjef Fiskifjelagsins og Búnaðarfjelagsins. Þá skal jeg taka það fram, að Bjarni Sæmundsson hefir beinlínis verið frumkvöðull ýmsra praktiskra framkvæmda á þessu sviði, og þar með gert mikið gagn. Hann vakti eða endurvakti áhugann á þorskveiðum í net, átti upptök að síldveiðum með reknetum hjer við Faxaflóa, og má sjálfsagt telja í miljónum gróðann af þessu. Það er því bersýnilegt, að starf hans hefir haft hina mestu praktisku þýðingu. Auk þess er auðsætt, að rannsókn á fiskigöngum og hrygningarsvæðum hefir einmitt fyrst og fremst praktiska þýðingu, því að samkvæmt niðurstöðum slíkra rannsókna leita fiskimennirnir að nýjum miðum. En jeg fór ekki mikið út í þetta síðast, af því að mjer datt ekki í hug, að mótmæli eins og þau, sem hv. 1. þm. Skagf. (JS) hreyfði, mundu yfirleitt koma fram.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál meira, en vísa til þess, sem jeg hefi áður sagt, enda þykist jeg þess fullviss, að hv. deild muni samþykkja þetta.

En úr því jeg er staðinn upp á annað borð, ætla jeg að gera stuttar athugasemdir út af tveimur öðrum málum. Það fyrra eru launakjör símastúlknanna. Hv. fjárveitinganefnd hefir ekki þóst geta fallist á till. mína, af því að hún komi ekki fram sem breyting á launalögum því með því brjóti hún prinsip sitt í þessu efni. Þó er sagt, að hún hefði getað fallist á það að taka símastúlkurnar einar út úr, en sleppa hinum starfsmönnum símans. Ef svo er, þá er principið alveg eins brotið með þessu. Annars leggur símastjórinn alveg jafna áherslu á hvorttveggja þessi atriði, enda eru launakjör þessarar stjettar, eins og oft hefir verið tekið fram, alveg óviðunandi, og eru símamenn lakast launaðir allra opinberra starfsmanna og því næst póstmenn. En sá munur er þó á þessu, að enga sjerþekkingu er heimtað að póstmenn hafi en hennar er krafist af símamönnum.

Þá ætla jeg að minnast örlítið á Petersensmálið svonefnda, einkum að því er rannsóknina svonefndu snertir. Hv. frsm. fjvn. (MP) sagði, að sjer hefði fundist álitsskjal nefndarinnar líkast varnarskjali fyrir landssímastjóra. Mjer fanst það blátt áfram vera sóknarskjal á hendur Petersen. Nefndin hefir auk þess algerlega misskilið hlutverk sitt. Henni var ekki ætlað að gera neinar tillögur um skaðabætur. Hún átti aðeins að rannsaka það, hvort maðurinn hefði verið beittur ranglæti eða ekki. En þetta hefir hún alls ekki rannsakað, og skýrsla Petersens sjálfs er það eina í málinu, sem hönd verður fest á og hægt er að byggja á, hvaða skaðabætur beri að greiða. Og þessa skýrslu hefir rannsóknarnefndin, þrátt fyrir góðan vilja, ekki getað hrakið.