30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

1. mál, fjárlög 1924

Karl Einarsson:

Jeg á hjer brtt. um að hækka tillagið til björgunar- og eftirlitsskipsins Þórs, úr 20 þús. kr. í 30 þús. kr. Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa tillögu. Háttv. deildarmönnum er málið kunnugt frá fyrri þingum. Aðeins má geta þess, að ekkert útlit er til þess, að útgerð skipsins verði ódýrari en í fyrra, og þá var hún svo dýr, að fjárveitingarnar hrukku varla til. Í fyrra voru veittar 30 þús. kr. úr landssjóði og 40 þús. kr. úr bæjarsjóði Vestmannaeyja. Stjórnin tók skipið á leigu um 2 mánuði til eftirlits með síldveiðaskipum, og var að því óbeinn hagur fyrir útgerð skipsins, því yfirmenn þess eru fastráðnir yfir alt árið, og er því tap að því að láta þá vera aðgerðalausa. Vestmannaeyingar hafa lagt talsvert á sig til þess að geta keypt þetta skip og rekið það, og höfðu þeir alls lagt fram um 516 þús. kr. í árslok í hitt eð fyrra í þessu skyni. Nú eru veittar 40 þús. kr. úr bæjarsjóði. eins og í fyrra, og jeg vona, að landssjóðstillagið verði eins og þá, 30 þús. kr. Þessi háttv. deild hefir altaf skilið nauðsyn þessa máls. eins og þingið í heild sinni, og tekið því vel, og eins vona jeg, að verði í þetta skifti.