07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

1. mál, fjárlög 1924

Bjarni Jónsson:

Jeg skal vera stuttorður og aðeins drepa á nokkra liði, sem liggja fyrir hjer til umræðu. Er þá fyrst 11. liður á þskj. 557. Harma jeg, að hann skyldi komast inn, því að barnaskóla utan kaupstaða ætti aldrei að byggja á þessu landi.

Þá er 16. liður. Jeg er alveg á móti að lækka styrkinn til þessa nafnkunna vísindamanns. Þá sje jeg ekki ástæðu til að fara í kapphlaup við hv. Ed. með að fella niður styrkinn til Helga Pjeturssonar, Jóns Þorsteinssonar og Markúsar Kristjánssonar. Jeg er því alveg á móti því, að þessir liðir sjeu feldir niður. Sama er að segja um 25. lið. Jeg bar hann fram hjer í þessari hv. deild og er því mótfallinn, að vilji Ed. verði virtur að vettugi í þessu efni.

Þá verð jeg að mæla með 26. lið, því að hann er til þess að láta mann ná rjetti sínum, því að það verður svo að vera, að menn viti, að þeir eigi hjer athvarf, ef rjettur þeirra er fyrir borð borinn. Þó jeg telji ekki rjett að vera að fella niður smáliði, sem Ed. hefir tekið upp, þá er þar með ekki sagt, að jeg sje á móti því að taka aftur upp þá liði, sem hún hefir felt niður, sem talist geta stefnumál, eins og t. d. símana. Vænti jeg nú, að þeir verði með þeim er áður voru á móti, til þess að sýna sjálfstæði þessarar hv. deildar. Og líkaði mjer vel það, er háttv. þm. Mýra. (PÞ) sagði, að hann myndi nú geta verið með mörgu því, er hann áður hefði verið á móti.

Þá skal jeg snúa mjer að III. brtt. á þskj. 578, frá háttv. þm. Skutilsfjarðareyrar. Þeirri brtt. er jeg meðmæltur, því að það yrði of seint, sem Ísafjarðardjúpið fengi sjúkrahús sitt, ef athugasemdin væri látin standa.

Þá vil jeg leggja VII. brtt. á áðurnefndu þskj. mitt liðsyrði, því að hún hefir verið samþykt hjer áður, og er því auðsætt, að hana ber að samþykkja aftur.

Þá flyt jeg X. brtt. á þskj. 578, um styrkinn til Bjarna Sæmundssonar. Hann hefir óskað eftir þessu orðalagi, og vænti jeg því, að brtt. verði samþ. án atkvgr.

Þá kem jeg að þessari refatillögu þeirra samherjanna, háttv. 1. þm. N.-M. (ÞorstJ) og háttv. þm. N.-Ísf. (SSt). Þetta er vitanlega mjög merkileg tillaga, því að áríðandi er að geta eytt sem flestum refum í landinu, og efast enginn um, að ritgerðir í Búnaðarritinu sjeu best til þess fallnar. Fyrir því hefi jeg leyft mjer að koma með brtt. við till. þeirra, til þess að hægt væri líka að fá upplýsingar hjá manni nokkrum vestur í Dölum. Jóni Guðmundssyni að nafni, sem hefir alla tíð verið mikill refaóvinur og eytt fjölda þeirra. Ef jeg væri eins mikill refasnillingur og þessir menn, þá mundi jeg semja ritgerð og leggja til, að þeir færu til hv. þm. N.-M. (Þorstj), sem vildi tala og skrifa refina dauða, en hinir til hv. þm. N.-Ísf. (SSt), er vildi skrifa líf í þá. En fari svo, að mín brtt. um styrkinn til Jóns Guðmundssonar verði feld, þá verð jeg einnig á móti hinum styrknum.

Jeg vil mæla með till. hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) um styrk til Byggingarfjelags starfsmanna ríkisins. Vona jeg að háttv. deild verði ekki á móti slíkri sanngirniskröfu.

Þá kemur styrkurinn til Reinholds Anderssons skraddara til þess að sauma landsforða af karlmannafatnaði úr íslenskum dúkum. Yrði ekki svo lítill gjaldeyrissparnaður fyrir ríkið, ef þetta kæmist í framkvæmd, auk þess hve það er miklu eðlilegra, að unnið sje hjer úr ullinni, og mundi það veita tryggari markað fyrir hana. En til þess að slíkt geti orðið, verður að framleiða vöru úr íslenskum dúkum, sem ekki standi að baki þeirri útlendu og sje jafnútgengileg. Nú kaupa menn inn útlendan fatnað fyrir 3/4 milj. króna. Margt af þeirri vöru er hræódýrt en líka hræónýtt. Ef nú kæmi í staðinn góður íslenskur fatnaður, mundi hann fljótt bola hinn út af markaðinum og jafnframt bæta fyrir ullarmarkaðinum hjer heima. En nú er það erfitt fyrir fátækan mann að kaupa mikið af efnum og vinnu og leggja mikið fje í það fyrst í stað. Bankalán fæst ekki til þess nema með afargóðum tryggingum og háum vöxtum. Háttv. deild hafði svo góðan skilning á þessu síðast og sá, að hjer var um það að ræða að hjálpa öðru nytsemdarfyrirtæki hjer, nefnilega ullariðnaðinum, og þess vegna er þetta tekið upp aftur, þó að það væri af misskilningi felt í háttv. Ed. Þetta er öðrum þræði verslunarfyrirtæki, og mun Andersson fá í lið með sjer færan verslunarmann. Og enginn vafi er á því, að þetta fyrirtæki muni blómgast, þar sem Andersson er mjög góður og duglegur skraddari og verslunin í höndum góðs manns. Þetta fer alveg í sömu átt og þingið hefir oft og lengi barist fyrir, nefnilega að bæta fyrir íslenskum markaði og bæta úr gjaldeyrisvandræðunum.

Ef þetta verður nú samþykt hjer, vona jeg, að það verði látið í friði í hv. Ed. Hefir það máske verið felt þar sökum þess, að hv. deild hafi þótt líkur fyrir því, að fje mundi ekki verða fyrir hendi, en það er ekki hægt að segja um fyrirfram, og gott að hafa lánsheimildina af öðrum ástæðum. Það gæti bætt fyrir á öðrum sviðum, ef það kæmi í ljós, að ríkið hefði tekið svona vel í þetta.