13.03.1924
Efri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1112)

59. mál, friðun rjúpna

Sigurður Jónsson:

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem hv. frsm. (EP) og síðasti ræðumaður (EÁ) sögðu. Hv. síðasti ræðumaður talaði um það, að hann vildi fara miðlunarleið í máli þessu. Það höfum vjer nefndarmenn einnig viljað. Til þess að komast að sem rjettastri niðurstöðu um þetta mál, þyrfti helst að rannsaka, hvernig útbreiðslu rjúpunnar er háttað hjer á landi. Hygg jeg, að hún muni vera mest þar, sem lyngmóar eru. Ekki mun það rjett hjá hv. 1. þm. Eyf., að rjúpan hafi nú náð þeim fjölda, sem hún hafði fyrir harðindin miklu; því fer fjarri. Hefir reynslan af fyrirspurnum um það atriði orðið mjög misjöfn. Mjer hefir t. d. verið tjáð, að í Húnavatnssýslu sje mjög lítið um rjúpu. Sömuleiðis í Skagafjarðarsýslu og á Suðurlandi. Þeir, sem kunnugir eru lifnaðarháttum rjúpunnar, munu vita það, að hún er mjög plássföst og flýgur ekki langt, þótt skotið sje. Seinast þegar rjúpan fjell sem mest, var það aðallega byssunni að kenna, því að hún þyrptist ofan í bygðina undan snjóþyngslunum, og var þá hægt um vik að skjóta hana. Tel jeg því nauðsynlegt að friða rjúpuna lengur. Jeg loka ekki augunum fyrir því, að rjúpan er verslunarvara og nytsöm sem neysluvara innanlands, en slíkt eru hlunnindi, sem fara verður varlega með, ekki síður en veiði í ám og vötnum, en ekki standa í vegi fyrir því, að þau geti orðið landsmönnum sem arðsömust. Nefndin færði friðunarárin saman um þriðjung, þannig að rjúpan skuli friðuð 5. hvert ár, því að hún leit svo á, að ef rjúpan yrði friðuð aðeins 7. hvert ár, þá gæti orðið hætta á því, að hún gereyðilegðist. Rángirni manna er svo mikil, að ekki er auðvelt að sporna við henni. Jeg verð því að halda fast við það, sem landbn. hefir lagt til málanna.