26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi ekki miklu að svara hv. þm. Str., sem kom hjer fram eins og einskonar frsm. nr. 2. Þó vildi jeg sjerstaklega leiðrjetta eitt, sem hann sagði. Hann kvað mig meðal annars hafa veist að hv. fjvn. Eru þau ummæli eðlileg á hans máli, en í venjulegu tali mundu þau hafa verið talin staðleysa ein. Jeg gaf hv. fjvn. fylstu viðurkenningu fyrir störf hennar, og gerði aðeins 3 brtt. hennar að umtalsefni. Hefði því átt að lýsa afstöðu minni til hennar með rjettum hætti, hefði orðið að gera það með þveröfugum ummælum við það, sem hv. þm. Str. gerði. Auk þeirra brtt., sem jeg gerði að umtalsefni, benti jeg á eitt verkefni hv. fjvn., sem hún hefir enn ekki lokið við og mjer virtist vera í ósamræmi við aðrar till. hennar. Það var reikningur Fiskifjelagsins, og virðist mjer sum útgjöld þar ekki vera í samræmi við sparnaðarstefnu nefndarinnar. Hv. þm. (TrÞ) mintist ekki á þetta, og skil jeg það svo, að hann hafi með þögninni viðurkent, að jeg hafi farið hjer með rjett mál. Annars bíð jeg átekta og sje, hvað hv. nefnd gerir í þessu máli til 3. umr. En jeg vildi gjarnan eiga tal við hana um það og fleira milli 2. og 3. umr.

Jeg skal ekki tala langt mál um skóla þá, sem hv. fjvn. vill velta yfir á bæjarsjóð Reykjavíkur. En jeg vil segja það, að ekki næst það með till. hv. fjvn., sem hv. þm. Str. vill halda fram, að þessir skólar, sem hingað til hafa verið fyrir alt landið, eigi framvegis að vera fyrir bæinn, sem þeir standa í. Þeir verða jafnopnir fyrir alla áfram, ef þeir sjá sjer fært að halda áfram eftir þessar gerðir hv. fjvn.

Hv. þm. (TrÞ) vildi halda því fram, að önnur hjeruð styrktu skóla sína tiltölulega. Kann það að vera rjett að einhverju leyti hvað kvennaskólann snertir — jeg þori ekki að segja neitt um það. En jeg vil vekja athygli á því, að hv. þm. (TrÞ) lagði ekki fram neinar tölur máli sínu til sönnunar. En hvað iðnskólann snertir, fellur allur slíkur samanburður til jarðar, því upphæðin, sem ríkissjóður leggur til hans, er minni en til nokkurs annars skóla, sem styrktur er af opinberu fje, að tiltölu við allan kostnað skólahaldsins. Og þó bæjarsjóður Reykjavíkur standi ekki beinlínis straum af honum, þá er það sama sem, því eins og vitanlegt er heldur fjelag hjer í bænum skólanum uppi, og má því sannarlega telja fje þeirra manna, sem í því eru, komið frá bænum. Jeg nefni þetta ekki af því, að jeg telji það stórmál, heldur til að benda á, að enn stendur það óhrakið, að enginn sparnaður er að því að velta útgjöldum ríkissjóðs yfir á aðra sjóði. Og jeg vil bæta því við, að það er ekki rjett, að ríkið geti tekið fram fyrir hendur bæjarsjóðs og gert honum að skyldu að leggja vissa upphæð til skólanna. Bæjarstjórnin hefir ein úthlutunarrjett á fje bæjarsjóðs. Og hvað viðvíkur samræminu við Blönduósskólann, þá leggja sýslurnar þar aðeins fram 2000 kr. En hjer er farið fram á, að bæjarsjóður leggi miklu meira að tiltölu til kvennaskólans og iðnskólans.

Annars get jeg tekið undir það með hæstv. forsrh. (JM), að jeg hefði ekki gert annað í máli þessu en að verja fyrirrennara minn, hv. 2. þm. Rang. (KlJ), enda hefir hann notað þingmannsstöðu sína til þess að staðfesta mál mitt.

Jeg veit, að allir, sem þekkja til, fallast ekki á, að sanngjarnt sje, að stjórnin leggi minna til iðnskólans en til annara skóla hlutfallslega. — Annars hefi jeg orðið að geyma til 3. umr. flest, er jeg vildi segja um þessi mál, og mun jeg þá annaðhvort sjálfur bera fram brtt. eða leggja til við nefndina að gera það, við það, sem að mínu áliti er ekki nógu vel frá gengið og jeg hefi ekki haft tíma til að athuga við 2. umr.