07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Hv. 1. þm. Reykv. (JÞ) sagði, að það væri að fara í geitarhús að leita sjer ullar, ef spyrja ætti um álit bæjarstjórna um mál þetta. Það er satt, að svo hefir komið á daginn. En þar sem breyta átti löggjöf kaupstaðanna, sem eftir gildandi lögum hafa sjálfstjórn í sínum málum, þá virtist ekki hægt að ganga framhjá því að leyfa kaupstöðunum að láta í ljós skoðanir sínar. Kemur mjer ekki til hugar, að þingið vilji brjóta beint rjettindi bæjarstjórnanna í því efni. Í fyrra var og gengið út frá því, að svo yrði gert, og sami hv. þm. (JÞ) tók þá fram, að það væri leitt, ef það tefði tímann.

Jeg vil aðeins taka það fram viðvíkjandi niðurjöfnuninni, að hún hlýtur að vera nokkuð sjerstök á Siglufirði. Og eins og bæjarfógetinn tekur fram í skýrslu sinni, þá virðist það ekki ósanngjarnt, að lagt sje á skip, sem á 3 vikum leggur þar upp 4000 tunnur, fyrst heimilt er að leggja á árabát, sem fiskar ef til vill mjög lítið á 4 vikum; hljóta þar því að gilda aðrar reglur en annarsstaðar. Hitt er sjálfsagt satt, að þetta vald er víða mjög misbrúkað, og virðist æskilegast, að gjaldendur gætu snúið sjer til annars valds en viðkomandi bæjarstjórna með kærur sínar, annaðhvort til atvinnumálaráðuneytisins eða þá beint til dómstólanna.

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir og orðið hefir tilefni til þessara almennu umræðna, stendur ekki í sambandi við það, hvort samræma eigi kaupstaðalöggjöfina eða ekki. Jeg viðurkenni fyllilega, að löggjöf Reykjavíkur hlýtur að vera sjerstök, og leitaði því ekki álits hennar, er jeg sneri mjer til kaupstaðanna.

Þetta frv., sem bæjarstjórnin hefir samþykt með miklum atkvæðamun, eða með 10:1 atkv., get jeg fallist á í öllum atriðum og mun styðja að því með atkvæði mínu, að það nái fram að ganga.