29.04.1924
Efri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Það gladdi mig, er háttv. 2. þm. G.-K. (BK) sagði, að jeg hefði talað stillilega um þetta mál, því að fyrir mjer er það ekkert hitamál. Það er ekki rjett hjá hv. þm., að hjer sje ekki um neitt tekjuaukafrv. að ræða. Því að hjer er einmitt um tekjuauka að ræða þar sem 2. liður frv. mun gefa um 60–70 þús. kr. tekjur. Og ástæðan fyrir því, að það er fram komið, er alveg hin sama, sem liggur til grundvallar fyrir tekjuaukafrv. ríkissjóðs, sem sje tekjuþörf bæjarsjóðs. Mjer hefir verið skýrt frá, að því er snertir a-lið í brtt. hv. þm., um að í stað 0,8% komi 0,6%, að yrði hún samþykt, þá myndi skatturinn ekki nægja fyrir sorphreinsun, salernahreinsun, sóthreinsun og útrýmingu rottna.

Að jeg benti á, að jafnaðarmennirnir í bæjarstjórninni voru með frv. þessu, var af því, að jeg taldi það undarlegt, að sá flokkur væri með því, ef það væri til að auka sjerstaklega skatta á þeim fátæku. Og ennfremur væri það undarlegt, ef hinir efnuðu húseigendur berðust af krafti fyrir því, ekki sín vegna, heldur vegna annara gjaldenda.

Mjer finst ótvírætt, að þetta frv. miði að því að íþyngja hinum efnuðu með skatti, og það er auðvitað, að til þeirra verður altaf að fara, þegar útvega þarf háa skatta.

Jeg vil leyfa mjer að benda hv. þm. (BK) á það, að sje frv. eins og það liggur fyrir í eðli sínu ranglátt og gjöldin komi rangt niður, þá breyta breytingartillögur hans því ekki. Hví hefir hv. þm. ekki með brtt. sínum reynt að bæta úr ranglæti frv., heldur aðeins gert tilraun til þess að drepa það? Hv. þm. má ekki furða sig á því, þó að jeg hafi ekki haft tíma til þess að rannsaka þau dæmi, sem hann hefir komið með, því að slíkt grípur svo víða inn og útheimtir mikinn tíma, en þar sem bæjarstjórnin hefir haft þetta mál svo oft til meðferðar, þá er varla trúlegt, að hún hafi hrapað að því eða haldi því til streitu, ef grundvöllur þess væri ranglátur. Annars hefir verið bent á það, að frv. var fyrst borið fram af borgarstjóra, Jóni Ólafssyni og Þorvarði Þorvarðssyni, og hafði þannig stuðning allra flokka bæjarstjórnarinnar. Frv. var ekki borið fram af kommúnistum eða jafnaðarmönnum, heldur af öllum flokkum. Treysti jeg mjer ekki til að vera á móti þessum tekjuauka fyrir bæinn, þar sem þessi breyting hefir svo eindregið fylgi sjálfrar bæjarstjórnarinnar. Og þó að einhverjir gallar kunni að vera á frv., þá má geta þess, að útsvarsfyrirkomulagið, eins og það hefir verið hingað til, hefir ekki verið nein fyrirmynd að rjettlæti. Til þess að hægt sje að jafna rjettlátlega niður, þurfa menn að vera gagnkunnugir högum manna, en á það mun oft bresta, enda mjög örðugt að koma því við. Benda útsvarskærurnar, sem eru ótal margar árlega, til þess, að menn sjeu ekki allskostar ánægðir með rjettlæti niðurjöfnunarinnar. Jeg get því ekki verið á móti frv. fyr en jeg hefi heyrt meiri rök gegn því. Jeg álít, að það skifti svo miklu máli fyrir bæinn að fá þennan tekjuauka, að ekki sje forsvaranlegt fyrir menn að leggjast á móti frv. Jeg vænti því, að hv. flm. taki brtt. sínar aftur, þar sem hætt er við því, að þær verði frv. að falli, ef þær verða samþyktar.