05.04.1924
Neðri deild: 43. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

67. mál, búnaðarlánadeild við Landsbanka Íslands

Hákon Kristófersson:

Hv. frsm. (ÁJ) talaði svo vel fyrir þessu máli, að jeg hef litlu við það að bæta. En þó vil jeg taka það fram viðvíkjandi orðum hv. þm. N.- Ísf. (JAJ), að sjálfsagt er, að nefndin leiti fyrir sjer við bankann. En án þess að vísu, að jeg hafi vissu, þá býst jeg við því, að svarið verði neitandi. Eins og nál. ber með sjer og komið hefir fram hjer við umræðuna, þá er þetta mál fram komið án meðmæla bankastjórnarinnar. En nefndin leit svo á, að málið væri svo þýðingarmikið, að rjett væri, að þingið mælti svo fyrir, ef tiltækilegt þætti, að bankinn skyldi leggja fram þennan litla hluta af því fje, sem hann ávaxtar fyrir almenning, til styrktar landbúnaðinum, gegn fullum tryggingum.

Hvað vextina snertir, þá er jeg sammála hv. 3. þm. Reykv. (JakM) um það, að varhugavert sje að binda þá við innlánsvexti bankans. Jeg lít svo á, að vel mætti una við 5%. Jeg er líka sammála hv. þm. (JakM) um það, að jeg get ekki litið á þessi lög sem heimildarlög, heldur fullkomlega ákveðin lög, sem skylda beri til að framkvæma.

Hæstv. fjrh. sagði, að varhugavert væri að binda svona fje bankans til langs tíma og með lágum vöxtum. Kvað hann það mundu spilla áliti hans hjá erlendum viðskiftavinum, þar sem breytt væri út frá almennum reglum í rekstri banka. Jeg sje ekki, að í þessu felist minsta hætta, því að bankinn á auðvitað ekki að lána öðruvísi en gegn fullri tryggingu. Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) leit svo á, að nýbýlin mundu vera besta tryggingin fyrir því, að fólkið flytti ekki úr sveitunum. Þetta getur vel verið, og heyrist mjer nú, að hv. þm. (JBald) sje nú orðið ljóst, að fullmargt fólk sje komið til bæjanna, samanborið við þá atvinnu, sem þar er rekin.