18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

84. mál, aukaútsvör ríkisstofnana

Fjármálaráðherra (KlJ):

Jeg vil þakka háttv. flm. fyrir að hafa flutt þetta frv. Jeg tek undir það með honum, að mjer þykir illa við eiga, að ríkissjóður eigi undir högg að sækja við niðurjöfnunarnefndir og sveitarstjórnir. Þetta gamla ákvæði, sem heimilar að leggja aukaútsvör á eftir efnum og ástæðum, er svo rúmgott og teygjanlegt á alla vegu, að menn hafa það alment á tilfinningunni, og það ekki síst í þessum bæ, að það þyrfti sem fyrst að hverfa frá þessari reglu og finna annan betri grundvöll.

Síðastliðið ár hafa komið kærur frá ýmsum stærstu atvinnurekendum hjer undan útsvarsálögunum. Hafa þeir borið sig upp við stjórnina út af þessu, og hafa sumir ekki verið mildir í máli gagnvart þessu fyrirkomulagi. En stjórnin hefir ekkert vald til að breyta neinu til um útsvör manna, hvað ranglát sem þau kunna auðsýnilega að vera. Álagningarnar á ríkisstofnanir ná ekki neinni átt í samanburði við tekjurnar, stundum 25% af arðinum, og er því þetta frv. næsta þarflegt.

Þó get jeg ekki verið sammála hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um það, að fella beri niður 2. gr. frv. Þvert á móti virðist mjer það ósanngjarnt gagnvart bænum, ef hann hefir engar tekjur af þessari starfsemi, sem er rekin hjer. Það er alkunnugt, að áður en tóbaksverslunin var gerð að ríkiseinkasölu, þá voru hjer margir menn, sem höfðu góða atvinnu af því að versla með tóbak, og auðvitað hafði bærinn tekjur af atvinnurekstri þessara manna. Um leið og þessi atvinna er tekin af þessum mönnum með einkasölunni, þá er bærinn sviftur þeim tekjum. Jeg álít því, að það komi ekki til nokkurra mála, að bærinn fái ekki eitthvað í sinn sjóð frá þessum stofnunum ríkisins. Hvað mikið, — hvort það eigi að vera 5%, — það segi jeg ekkert um. Það mun nefndin athuga.

Jeg mun greiða frv. atkvæði til nefndar og áfram, og vona, að nefndin taki því vel.