03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2346 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Klemens Jónsson:

Jeg held, að þetta mál sje vafalaust merkasta málið, er liggur fyrir þessu þingi, og jeg hygg, að óhætt sje að fullyrða, að alþjóð vænti þess, að þingið veiti á því einhverja viðunandi úrlausn. Má það því virðast ærið undarlegt, að það skuli fyrst koma til alvarlegrar umræðu, þá er fast er komið að þinglausnum og auðsjeð er, að því verður ekki fram komið nema með afbrigðum frá þingsköpunum.

En þetta er ekki að kenna tómlæti þingmanna. Um málið komu fram tvö frv., annað, á þskj. 225, tiltölulega snemma, og hitt, á þskj. 289, fyrir 4 vikum, svo að bæði frv. hefðu mátt komast á dagskrá án afbrigða frá þingsköpum.

En ástæðan til þess, hve seint þetta mál kemur til umræðu, er sú, að fjhn., er hafði það til meðferðar, leitaði um það álits þeirra stofnana, sem ráð er gert fyrir í frv. á þskj. 289, að skipi menn í gjaldeyrisnefnd þá, er frv. ákveður, að skipa skuli. En það stóð á svari frá bönkunum; svar frá Landsbankanum er alveg nýlega komið, en frá Íslandsbanka veit jeg ekki til, að neitt svar sje komið enn, nema hvað stjórn hans kom á fund nefndarinnar eina morgunstund fyrir skemstu. Hefi jeg tekið þetta hjer fram til þess að menn vissu, hverju það væri að kenna, að svo hefir dregist umræða um þetta áhugamál alþjóðar.

Jeg vil taka það fram, að sje nokkurt mál rætt og rannsakað frá almennu sjónarmiði, þá er það þetta mál. Var það t. d. þaulrætt á þingi 1922. Býst jeg því ekki við, að nein ný rök muni koma fram, enda hefi jeg ekki tekið eftir því við umræður nú, að nokkuð nýtt hafi komið í ljós. Jeg mun því fyrir mitt leyti sleppa öllum almennum athugasemdum um málið, en læt mjer nægja að vísa til athugasemda minna, er jeg bar fram frv. á þskj. 289. Jeg ætla aðeins að ræða um frv. það, sem hjer er til umræðu, og skýra frá, hvað í því jeg tel til bóta. Fjárhagsnefndin hefir steypt saman báðum frumvörpunum og ætlast til, að ein og hin sama nefnd hafi bæði gengisskráning og gjaldeyrisverslun. Annars er jeg alls ekki fyllilega ánægður með það, hvernig nefndin er skipuð, en vil til samkomulags ljá því liðsyrði, einkum þar sem 6 af 7 nefndarmönnum eru sammála um framgang þess. Tel jeg það vel farið, því að þá má búast við því, að málið verði afgreitt og að frv. verði samþykt. Tel jeg það til stórbóta, en þó því aðeins, að því verði vel og rækilega framfylgt. Vænti jeg þess, að hæstv. fjrh. (JÞ) noti lögin og verði ekki um of kröfuharður á nauðsynina, og vil jeg þar sjerstaklega benda á ákvæðin í 4. gr. Eru það einkum 4 atriði í þessu frv., sem jeg tel mjög mikilvæg.

Er þá fyrst það, að skipa skuli nefnd, sem hafi á hendi skráningu erlends gjaldeyris. Getur ekki hjá því farið, að þetta verði til mikils gagns, ef vel tekst. En mikið fer það þó eftir því, hve þeir, sem eiga að skipa mennina í nefndina, vanda val sitt. Treysti jeg því fyllilega, að sá maður, sem hæstv. fjármálaráðherra á að skipa, verði ekki af verri endanum, og jeg býst við því, að bankarnir mundu velja einn af bankastjórum sínum. Þetta atriði er áreiðanlega mikilsvert, ef skráningin fer samviskusamlega fram og með fullri gætni. Er auðvitað ekki til þess ætlast, að tekin verði stór stökk eða sveiflur, er hafi það í för með sjer, að sumir menn bíði við það stórtjón, en aðrir græði á því mikið fje. Við skráninguna þarf einmitt að gæta sem best hófs, en sje það gert, má vænta þess, að hún hafi mikið gott í för með sjer.

Annað atriðið er það, að nefndin hafi rjett til að krefjast þess af mönnum, sem eiga erlendan gjaldeyri, þar með talin verðbrjef, að þeir gefi henni um það upplýsingar, hvar þeir eigi hann, hvernig þeir verji honum og hvað þeir eigi stórar upphæðir. Hefir grunur legið á því, að menn hafi lagt erlendan gjaldeyri inn í banka í útlöndum, og jafnvel tekið út innieignir sínar í bönkum hjer og lagt þær inn í erlenda banka. Er nauðsynlegt að fá um þetta fulla vissu, og tel jeg ákvæðið til verulegra bóta.

Þá kem jeg að þriðja atriðinu, sem er það, að nefndin geti krafist þess, að þeir, sem eiga erlendan gjaldeyri, afhendi hann sjer til umráða. Er þetta í frv. bundið því skilyrði, að nauðsyn krefji. Og jeg vænti þess, að nefndinni dyljist ekki nauðsynin. Í eldra frv. var það tilætlunin, að nefndin rjeði skilyrðislaust yfir öllum erlendum gjaldeyri, og allir, sem þyrftu á yfirfærslum að halda, sæktu peninga til hennar. En jeg lít svo á, að þar sje fulllangt gengið. Ef engin brýn nauðsyn er fyrir hendi, er alls ekki ástæða til, að nefndin heimti í sínar hendur umráðin yfir erlendum gjaldeyri.

Loks er fjórða atriðið, sem jeg verð að telja, að sje til mjög mikils gagns.

En það er það, að fjármalaráðherra skuli heimilt að banna öllum öðrum en bönkunum að versla með erlendan gjaldeyri. Hefði þetta ákvæði átt að vera sett fyrir löngu. Raunar er það svo nú, að bankarnir segjast ráða yfir öllum erlendum gjaldeyri, en þó að jeg hyggi, að ekki sje ástæða til að vefengja það, mun þó eitthvað til af erlendum gjaldeyri, sem ekki er í höndum bankanna. Og að undanförnu hefir ekkert eftirlit verið haft með þessu. Er það á allra vitorði, að einstakir menn hafa verslað með erlendan gjaldeyri og selt hann hærra verði en bankamir. En þetta hefir aukið dýrtíð í landinu, því að þeir kaupsýslumenn, sem keypt hafa erlendan gjaldeyri af þessum mönnum, hafa auðvitað sjeð um sinn hag og selt vörurnar þeim mun hærra verði, sem þeir hafa gefið meira fyrir gjaldeyrinn en bankarnir hafa selt hann. Og svo ramt hefir að kveðið, að sjerstök stofnun hefir verið hjer í bænum, sem verslað hefir með erlendan gjaldeyri; og þó að hún sje nú lögð niður, þá starfaði hún þó mestan hluta ársins sem leið. Þessi stofnun seldi raunar gjaldeyrinn oft og tíðum lægra verði en bankarnir, og hefi jeg það meðal annars frá einum af embættismönnum ríkisins, sem þurfti oft á yfirfærslu að halda. En hvað sem því líður, þá er það óeðlilegt, að einstakir menn og stofnanir versli með erlendan gjaldeyri á jafnvarasömum tímum og nú eru.

Þessi 4 atriði í frv. fjhn. tel jeg svo mikilsverð, að jeg hika ekki við að ráða til þess, að það verði samþykt. Auðvitað má búast við brtt., og veit jeg, að einn þm. mun koma fram með till. um víðtækar breytingar. Er auðvitað ekki ástæða fyrir nefndina til að hafa á móti brtt., ef þær eru sýnilega til bóta, en jeg leyfi mjer að efast um, að slíkar till. komi fram, þó að ef til vill sje ekki ástæða til að efast um það að fyrra bragði.

Jeg hefi átt tal um málið við einn af forstjórum Landsbankans, og ljet hann ótvírætt í ljós, að hann legði mikla áherslu á, að frv. næði fram að ganga. Vænti jeg þess, að það verði frekar til að ýta undir deildina að samþykkja frv.

Í fám orðum sagt lít jeg svo á, að þó að ekki sje nú tími til að láta reglulegar umræður fara fram um málið, þá sje það til stórra bóta, að þetta frv. nái fram að ganga. Vona jeg, að það sýni sig, að ekki sje illa ráðið, að málið verði til lykta leitt á þennan hátt.

Jeg hefi áður verið á móti því, að merkum málum væri flaustrað af undir þinglok, með afbrigðum frá þingsköpum, en jeg þykist hafa gert grein fyrir því, hvernig því er varið, að þetta frv. kemst svo seint á dagskrá. En jeg vil að lokum taka það ennþá fram, að því nær öll nefndin er samhuga um að fylgja þessu frv. fram til sigurs.