06.05.1924
Efri deild: 64. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

149. mál, gengisskráning og gjaldeyrisverslun

Sigurður Eggerz:

Jeg tel víst, að hæstvirt stjórn hafi þegar trygt þessu frv. fylgi þessarar hv. deildar. Þýðir því lítið að halda uppi löngum umræðum um málið.

Jeg tel nú ekki neitt athugavert við það, þótt hæstv. stjórn vilji hafa fulltrúa frá sjer, sem í samráði við bankana ákveði gengið. En hinsvegar er jeg á móti nauðungarákvæðum frumvarpsins. Jeg veit ekki betur en bankarnir fái nú svo að segja allan gjaldeyrinn í sínar hendur. Það byggist í einu orði á því, að engir gefa betur fyrir hann en bankarnir. Allir fá nú yfirfært hjá bönkunum. Þeir, sem þurfa að fá yfirfært, gefa því ekki gjaldeyrishafa fyrir utan bankana meira fyrir gjaldeyrinn en þeir þurfa að borga í bönkunum fyrir yfirfærslu, og af því kemur aftur það, að gjaldeyrishafarnir hafa engan hag af að selja öðrum fremur gjaldeyrinn en bönkunum.

Með öðrum orðum, gjaldeyririnn lendir hjá bönkunum eftir eðlilegu lögmáli viðskiftanna. — Þar sem nú svo er, þá sýnast nauðungarráðstafanir ástæðulausar. En þær eru meira en það; þær eru hættulegar, því að það er vitanlegt, að ef nefnd sú, er frv. ræðir um, tæki allan gjaldeyrinn og verðlegði hann t. d. of lágt, þá mundi gjaldeyrishafinn reyna að koma eins miklu og hann gæti af gjaldeyrinum undan. Væntanlega verður þessum ráðstöfunum ekki beitt, en það er líka einasta afsökunin. Jeg hygg, að lögmál hinnar frjálsu verslunar reynist betra í þessu máli.