03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (1790)

9. mál, hjúalög

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Það er rjett, sem hv. frsm. meirihl. (JK) sagði, að frv. þetta er fram komið samkv. þeirri þál., sem þingið 1922 samþykti. Jeg býst líka við, að hefði stjórnin ekki neitt sint vilja þingsins í þessu efni, þá hefði hún hlotið ákúrur fyrir það tómlæti sitt á þinginu í fyrra. En vandlifað má vera fyrir stjórnina, þegar hún hefir gert vilja að þingsins, með talsverðri fyrirhöfn, og komið fram með frv., sem það hefir óskað eftir, að það skuli þá snúast á móti því, raunar ekki fyrir þær sakir, að það sje óheppilegt, heldur vegna þess, að það sje ótímabært. En við þessu er auðvitað ekkert að segja, þar sem þetta er ekki annað en það, sem stjórn hvers lands getur átt von á.

Hv. frsm. meirihl. (JK) taldi ekki heppilegt að láta þetta frv. ganga fram nú að sinni, en jeg verð að játa, að jeg fæ ekki skilið, hvað sje óheppilegt við það að koma fram með frv., sem sumpart tekur upp gildandi lagaákvæði og sumpart hefir í sjer fólgna viðauka, sem viðurkent er, að sumir hverjir að minsta kosti miði til mikilla bóta. Og einustu rökin, sem færð voru gegn frv., voru þau, að nú væri erfiðleikar á því að fá hjú í víst í sveitum, en þess er ekki gætt, að það er nákvæmlega sama rjettarsamband milli hjúa og húsbænda eftir tilsk. 1866 og hjer er gert ráð fyrir.

Hv. þm. (JK) gat þess, að engar óskir hefðu komið fram um breytingar á núgildandi hjúalöggjöf frá húsbændum eða hjúum. En jeg get þó gefið þá skýringu, að þál. 1922, sem jeg nefndi áður, var borin fram af þáverandi 1. þm. Árn. (EE), sem af mörgum var skoðaður sem nokkurskonar formælandi bænda og framsögumaður í landbúnaðarmálum á þingi. Og þar kom fram óskin um endurskoðun þessarar löggjafar. Frá hjúum hinsvegar er varla þeirrar framtakssemi að vænta, að frá þeim komi háværar kvartanir í þessa átt.

Jeg tók það sjálfur fram í Ed. í fyrra, að það hafi verið vandað óvenjulega vel til hjúatilsk. á sínum tíma, og að mjög fáir dómar hafi fallið í málum milli húsbænda og hjúa út af vistráðum. En þetta er engin sönnun fyrir því, að tilsk. sje enn góð og gild nú, eftir svo langan tíma og eftir að svo gagngerðar breytingar hafa orðið á sambandi milli húsbænda og hjúa.

Enginn efi er á því, að 8. gr. frv. er talsverð rjettarbót fyrir hjúin, því samkvæmt ákvæðum þeirrar gr. geta þau vitað, hvenær þau mega ganga að kaupi sínu, en meðan jeg var þessum málum kunnugur, fyrir 20 árum, vissi jeg til þess, að oft voru miklir misbrestir á því, að hjúum væri goldið umsamið kaup, og að minsta kosti oft ekki fyr en seint og síðar meir, og stundum í misjöfnum gjaldeyri. Það er því ekki svo lítill hagur fyrir þau að þessu ákvæði.

Loks skal jeg minnast á eitt atriði í frv., sem hv. allshn. þykir sjerstaklega miða til hins lakara. Það er ákvæði 30 gr., sem mælir svo fyrir, að um mál milli húsbænda og hjúa út af vistráðunum skuli farið sem um venjuleg einkamál, í stað þess að sæta meðferð einkalögreglumála. En satt að segja er mjer ekki kunnugt um nein ákvæði í íslenskum lögum um einkalögreglumál. Hvað þau snertir, þá hefir lengst af verið farið með þau eftir danskri venju, og hvað þau snertir, þá hefir lengst af verið breytt, má gera ráð fyrir því, að þau sjeu framkvæmd á mismunandi hátt, eftir því, hvar hver sýslumaður hefir numið. Hjá þeim, sem lært hafa hjer við háskólann, mætti kanske ætla, að meira samræmi væri ríkjandi í þessu efni. En það er alveg víst, að tilsk. 15. ágúst 1832, um rjettarfarið í hjeraði, var ætlað að ná yfir öll einkamál hjer á landi. Það mun líka hafa verið gert fyrst í stað, en svo hafa sýslumenn tekið að fara eftir dönskum lögum frekar en íslenskum, af því að hjúamál í Danmörku sæta meðferð einkalögreglumála.

Hvað viðvíkur því, hvort heppilegra sje, að dómari eða sáttanefnd leiti sátta í málum sem þessum, þá er jeg í engum vafa um það, að sáttanefndir reynist betur og sýni meiri þolinmæði í slíkum smámálum. Jeg fæ því ekki sjeð, að þessi breyting um málsmeðferðina miði til hins verra, en hinsvegar er hún ekki svo mikið stórmál í mínum augum, að jeg geti ekki felt mig við, að hún verði numin úr frv., ef ekki stendur á öðru.

Nefndin leggur til að fella frv. Þetta álít jeg miklu hreinlegra heldur en að fara að lappa upp á þessa úreltu tilsk. frá 1866.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, enda býst jeg við, að forlög frv. sjeu þegar ákveðin. En vel má þess minnast, að ekki þótti Dönum ótímabært að endurskoða sína löggjöf, en það gerðu þeir 1920, og er frv. það, sem hjer liggur fyrir, að miklu leyti sniðið eftir þeim lögum, og það er mín spá, að þetta frv. verði grafið upp, við tækifæri, og samþykt á Alþingi.