02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki verða mjög langorður í þetta sinn, enda ætla jeg mjer ekki að fara með margar sögur, hvorki úr Sturlungu nje annarsstaðar frá, og ekki heldur að þylja löng kvæði, eins og hv. þm. Str. (TrÞ) gerði. Jeg mun í þess stað svara honum með nokkrum rökum. Jeg álít þau sem sje dálítið meira virði en glamuryrði og gamlar sögur, sem menn geta heimfært upp á hitt og þetta með dálitlum breytingum.

Fyrst afsakaði hv. þm. Str. sig með því, að hann ætti ekki upptök að þessari deilu hjer nú. Þetta getur verið álitamál, en þó hefir hann í blaði sínu hælt sjer af því, að hafa átt upptökin að þessum deilumálum (TrÞ: Þá átti jeg upptökin). Já, mjer hefir altaf skilist, að ekki væri nema eitt upphaf hvers máls, en það er ekkert að undra, þó að hv. þm. Str. snúist hjer í hring sem annarsstaðar. Hv. þm. sagðist mundu hafa vel við unað, þó að deila þessi hefði ekki verið vakin hjer á ný. Jeg skal ekki rengja hann um það. Hann hefir hingað til haft furðu litla sæmd af máli þessu — og svo mun verða í framtíðinni, svo að jeg get vel skilið, að hann vilji sem minst um málið tala hjer á Alþingi, þar sem minna mark verður tekið á stóru orðunum hans.

Hv. þm. mintist á enska lánið og sagðist hann ekki hafa verið með þeim fremstu, sem hvöttu til þeirrar lántöku. Í gær neitaði hann að vísu fastlega, að hann hefði verið lántökunni fylgjandi á nokkurn hátt. En það skiftir ekki svo miklu máli, þó að hann slái dálítið af fullyrðingum sínum hjer sem annarsstaðar. Hann segir, að lánið sje hið mesta ókjaralán og bar það saman við lán, sem Landsbankinn hefir nýlega tekið í Englandi.

Það var mikið, að hann miðaði ekki við lánskjör fyrir stríðið. Það er sem sje dálítill munur á því, hvenær lán eru tekin, og jeg þykist vita, að enginn hv. þm., að undanteknum hv. þm. Str., gangi þess dulinn, að nú er hægara að fá lán í Englandi en var þegar umrætt lán var tekið, árið 1921.

Hv. þm. sagði það tóman fyrirslátt, að lánið hefði verið tekið í þeim tilgangi að kaupa fyrir það hlutabrjef í Íslandsbanka. Það má nú segja, að hjer sje verið að falsa heimildir, að kalla það fyrirslátt, sem hægt er að sanna með því að benda á lög frá Alþingi — og hverju öðru, sem vera skal. Jeg skil ekki, hvernig háttv. þm. getur fundið upp á slíku, sem þverbrýtur allar staðreyndir. Þá sagði hv. þm., að lánið hefði verið með mun verri kjörum en tíðkaðist þá, og þykist hjer heldur en ekki fjármálaspekingur, sem geti knjesett alla aðra. Á þingi árið 1922 lagði jeg fram brjef frá þektum bankastjóra í London til eins bankastjórans við Landsbankann hjer, þar sem sagt er, að jafnvel hin allra best stæðu fjelög og ríki fái ekki betri lánskjör en við fengum. En það er svo sem ekki hætt við, að hv. þm. Str. viti ekki betur, og væri nógu fróðlegt að fá að heyra, hvar hann hefir aflað sjer þessara upplýsinga, sem fara í bága við álit bestu fjármálamanna.

Landsbankastjórinn, sem var við lántökuna, fór að heiman með það fyrir augum að sætta sig ekki við lánskjörin. En þegar hann kom út, sá hann strax, að ekki var um annað að gera en að sæta þessum kjörum; betri fengjust ekki. Um þetta efni hefi jeg brjef frá honum frá þeim tíma.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að hið nýtekna lán hlyti að vera með verri kjörum en ella, vegna þess, að það væri banki, en ekki ríki, sem tæki það. En aðgætandi er, að ríkið er í ábyrgð fyrir láninu, og fæ jeg ekki sjeð mikinn mun á því, að ríkið taki lán eða Landsbankinn taki það með ábyrgð ríkissjóðs, þar sem hvorttveggja er sama eign, og það vita lánardrotnarnir ósköp vel um. Annars vissi hv. þm. ekki, til hve langs tíma þetta nýja lán er tekið, en öllum er þó ljóst, að afföll fara mjög eftir því, hversu lánið skal lengi standa. Enn má benda á það, að vitaskuld hefðu bankarnir ekki tekið sína hluti af eldra láninu, ef þeir hefðu ekki talið sig til neydda, eða átt annars úrkosta, enda var lánið fyrst tekið, þegar annar bankinn hafði hvatt þess mjög. (TrÞ. Var lánið þá ekki tekið vegna hlutakaupanna?). Jú, en bankinn bað um að flýta lántökunni og um hlutakaupin var ekki ákveðið fyr en hálfu ári seinna, þó að lánið væri einkum tekið með þau fyrir augum, eins og allir vita.

Hv. þm. sagði, að jeg kynni vel við að geta skotið mjer á bak við þingviljann í þessu máli. Það er rjett, að jeg mun aldrei skammast mín fyrir að fara eftir stjórnarskránni, og ef að því kæmi, að jeg færi í einhverju ekki eftir henni, þá er jeg viss um, að hv. þm. Str. risi upp fyrstur og galaði hæst um, hversu ósæmilegt það væri af mjer.

Háttv. þm. sagði, að það væri góðra gjalda vert, að hæstv. fyrv. fjrh. (KlJ) hefði stöðvað útgjöld ríkissjóðs og að hæstv. núverandi fjrh. (JÞ) ætlaði að gera hið sama. Þetta getur verið gott og blessað. En hvers vegna stöðvaði fjrh. Framsóknarflokksins, Magnús Jónsson, ekki útgjöldin? Og hvers vegna hefir hv. þm. (TrÞ), sem með miklum fagurgala þykist vilja vera rjettlátur og engum gera rangt til, ekki snúið ásökunum sínum gagnvart þeim ráðherra, heldur eingöngu gagnvart mjer? Af hverju skyldi það stafa? Er það vegna rjettlætistilfinningar háttv. þm., eða skyldi það stafa af „partisku“ hans? (TrÞ: De mortuis nihil nisi bene). Ekki var hann dauður meðan hann var ráðherra. Þá hefði hv. þm. getað vandað um við hann, ef hann hefði viljað — og ef rjettlætistilfinningin hefði enst honum til þess.

Annars voru greiðslur ríkissjóðs sjálfstöðvaðar síðastliðið sumar, þar sem ekkert fje var lengur fyrir hendi til þess að greiða með. Er því engin sjerstök ástæða til að lofa fyrv. fjrh., þó að hann þá stöðvaði greiðslur að mun.

Þá las hv. þm. upp kafla úr gamalli þingræðu. Var sá upplestur það eina, sem rjett var í ræðu hans í minn garð. Og jeg er alveg samþykkur hinu upplesna, sem og ræður af líkum, þar sem hann las upp úr ræðu eftir mig. Verð jeg að segja, að þar skifti mjög í tvö horn við hans ræðu. En það stóð ekki heldur lengur en meðan hann las upp eftir mig, að hann færi með rjett mál. Adam var ekki lengi í Paradís. Hann sagði, að jeg hefði ekkert farið eftir því, sem jeg hefði sagt í ræðu þessari. Jeg hefði í engu dregið úr útgjöldum ríkissjóðs. Við skulum nú sjá, hversu rjett hann fer með þetta mál. Jeg hefi hjer með höndum landsreikninginn fyrir árið 1921. Það ár voru veittar í fjárlögum 10 þús. kr. til Hróarstunguvegarins. Ekkert greitt. Til Vallavegarins voru einnig veittar 10 þús. kr., til vegarins frá Hrútafjarðarbotni að Gilsfirði 6 þús. kr., til Öxnadalsvegar 5 þús. kr., til Kjalarnesvegar 10 þús. kr.; en engin þessara upphæða var greidd.

Þessu slæ jeg upp af handahófi í einni grein fjárlaganna, af því að jeg mundi eftir því, að þar var dregið úr útgjöldum. Samt stendur hv. þm. Str. upp og vitnar um það, að jeg hafi ekki dregið úr neinum greiðslum, og því í engu farið eftir þeirri skoðun, sem lýsti sjer í ræðukaflanum, sem hann las upp eftir mig. Nú vil jeg skora á hv. þm. að sýna fram á, að svona mikið hafi verið dregið úr gjöldum ríkissjóðs árið 1922. Hann hefir ekki sagt eitt orð til miska þeirri stjórn, sem þá fór með völd, og þykist þó vilja vera rjettlátur. Geri hann ekki þetta, — og jeg veit, að hann getur það ekki, — stendur hann hjer á Alþingi ber að ósannindum og hlutdrægni, og mega aðrir dæma um, hversu klæðilegar flíkur það eru á hv. þm.

Háttv. þm. segist vona, að jeg verði varkárari framvegis vegna árása hans. Þá vill hann, að fyrir sjer fari eins og hann sagði, að farið hefði fyrir hæstv. fjrh., og sem hann ávítaði hann mjög fyrir, að hann hirti menn fyrst, en sje svo góður við þá á eftir. (TrÞ: Jeg ávítaði ekki). Jeg sje, að hv. þm. hristir höfuðið, og mun eiga að skilja það svo, að ákúrur hans í garð hæstv. fjrh. hafi verið eintómt hól. Samt las hann heilmikið upp úr Passísusálmunum í þessu tilefni, hafði yfir gamla drykkjuvísu, og má því sjá, að hann kann að minsta kosti eina slíka vísu, og náttúrlega blandaði hann Sturlungu inn í málið. Það er ekki hægt að neita því, að hann kann heilmikið í Sturlungu, því að hvorki stingur hann niður penna nje tekur til máls án þess að hann byrji og endi á því að vitna í þá bók, og er sýnilegt, að hann hefir mikið dálæti á þessari bók, sem fjallar um öld svika og ódrengskapar hjer á landi. Ætla mætti, að hann hefði meira dálæti á biblíunni, en svo er sjáanlega ekki. Sturlunga — saga ódrengskaparins — er honum hugþekkari.

Jeg var hissa á því, að hv. þm. skyldi blanda Pjetri heitnum Jónssyni inn í þessar umræður. Jeg skal ekki fara langt út í það mál nú, en mjer var kunnugt um, að þessum ágætismanni þótti fátt verra en hvernig blað hv. þm. snerist gegn honum — og má vera, að jeg við tækifæri segi hv. þm. nánar frá því máli, ef hann gefur tilefni til.

Hv. þm. sagði seint í ræðu sinni, að hann gerði hærri kröfur til annara en sjálfs sín. Já, það er vissulega satt. Hann gerir meiri kröfur til annara. En hver sæmilegur maður á fyrst og fremst að gera háar kröfur til sjálfs sín, síðan til annara.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði í gær talað um biðilsför af hans hálfu til mín. Þetta er ósatt. Jeg nefndi ekki biðilsför á nafn og vjek ekki að öðru í því sambandi en að jeg sagðist hafa fengið boð frá honum 1922 um að vera ráðherra áfram — og allur vefur hans um óskráð lög, sem jeg á að hafa rofið, er því hrein ósannindi.

Þá sagðist hv. þm. aldrei hafa búist við því, að jeg yrði fjrh. áfram 1922, þó að jeg yrði áfram í stjórninni. Jeg veit, að norður í Strandasýslu sagði hann, að meiningin hefði verið, að jeg yrði atvrh., en þeir, sem fluttu mjer boð hans, vita best, hvað hann hafði áður sagt — og jeg er viss um, að geta fengið yfirlýsingu þeirra hjer að lútandi, ef jeg kæri mig um. Hv. þm. segir, að þeir hafi viljað hafa mig áfram í stjórn þá vegna innflutningshaftanna, sem hann segir þó, að jeg hafi síðar snúist á móti. (TrÞ: Jeg nefndi ekki höftin). Jeg hjelt, að hv. þm. ætlaðist til, að ummæli sín yrðu skilin svo, en úr því að hann hristir nú aftur höfuðið, þá skil jeg það svo, að hann vilji ekki halda því fram, að jeg hafi snúist í þessu máli.

Hv. þm. talaði mikið um óskráðu lögin, en jeg veit alls ekki til, að jeg hafi rofið nein slík lög. En hvað segir nú háttv. þm. Str. um þann mann, sem lætur bera öðrum þau boð, að hann vilji hafa hann áfram til einhvers ábyrgðarmikils starfa, en grípur síðan fyrsta tækifæri, sem gefst, til þess að úthúða þessum sama manni niður fyrir allar hellur og elta hann á röndum eins og grimmur rakki? Á slíkur maður heimtingu á því, að honum sje sýndur drengskapur? Jeg segi nei. (BL: Heyr!). Drengskapar getur sá einn vœnst, sem drengskap sýnir. Jeg vil ekki lengja umr. frekar að þessu sinni, en segja vil jeg hv. þm. Str. það, að ekki mun viðskiftum okkar enn lokið frá minni hlið, ef hann heldur svo áfram, sem hann hefir byrjað. Jeg á ýmislegt í pokahorninu enn og jeg byrja ekki á því að slá út hátromfunum.