15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

Rannsókn kjörbréfa

Magnús Torfason:

Það hefir fátt verið hrakið af því, sem jeg ljet ummælt í fyrri ræðu minni, enda hefði jeg ekki farið að taka aftur til máls, hefðu ekki persónulegar athugasemdir brotið í minn garð. Það var verið að blanda kosningunni í Árnessýslu inn í umræðurnar og því haldið fram, að mjer hefði verið sýnd miskunn í sambandi við hana. En mjer er óhætt að segja, að til þess kom ekki. Því var raunar hreyft af andstæðingi mínum, að heimagefin atkvœði hefðu verið ógild, sökum þess að hreppstjóri hefði ekki vottað þau. Hafði enginn á móti því, en þegar atkvæðamunurinn reyndist vera svo mikill sem hann var, þá baðst sjálfur andstæðingur minn undan því, að þetta væri frekar rannsakað og fór á burtu. Það er því þýðingarlaust atriði í þessu sambandi. Ekki mun tala heimafenginna atkvæða í mínu kjördæmi heldur hafa verið 250, eins og sagt var. Þau munu víst ekki hafa verið sjerstaklega talin, en voru að líkindum fyrir innan 200. Enn get jeg lýst yfir því, að jeg tók ekki sjálfur á móti neinum atkvæðum; vjek því algerlega af mjer.

Þessu næst skal jeg í stuttu máli víkja að því, sem háttv. 1. þm. Reykv. (JÞ) sagði. Jeg er raunar því óvanur að endurtaka að mun það, sem jeg hefi sagt, enda getur fæstum blandast hugur um það, að jeg var í öllu samkvæmur sjálfum mjer, en það vildi háttv. þm. vefengja. Það var eitt atriði, sem hann studdi það við, nefnilega að jeg vilji ekki ógilda rangritaða seðla á Ísafirði. Sannleikurinn er sá, að jeg vil ekki leggja til, að beinir rjettritunargallar væru teknir til greina, þar sem jeg sá, að með því var þeim órjettur ger, sem ekki hafa átt kost á neinu námi, svo sem er um margt gamalt fólk. Svo langt vildi jeg ekki fara. Jeg hefi sjálfur í vörslu minni langt brjef frá gamalli konu, sem mjer var lítt mögulegt að komast fram úr, fyrri en jeg gaf því gaum, hvernig málfæri hennar væri; hún skrifaði nákvæmlega eins og hún talaði. Alt öðruvísi horfir málið við þegar maður sjer fallega skrift með margvíslegum kórvillum og viðbæti og innskotum í nöfnin.

Það getur farið vel á því, að frambjóðendur og kjörstjórnir komi sjer saman um þær reglur, sem vafaseðlar skuli úrskurðaðir eftir. En komi til þingsins kasta að úrskurða um þá, er það ljóst, að fara verður sem næst lagastafnum. Hvað viðvíkur l. um þingmannakosningu í Reykjavík, nr. 11, 18. maí 1920, þá er það að segja, að þau ná til krossins, en það verður að gera hærri kröfur til að rjett sje stimplað, þar sem það er auðveldara en að setja krossinn, því það getur t. d. verið örðugt fyrir skjálfhent fólk að gera hann vel. Reykjavíkurlögin eru því eigi sambærileg við lögin 1915, en þessi síðarnefndu lög gilda um kosninguna á Ísafirði.

Annað get jeg látið milli hluta. Jeg hefi aðeins viljað lýsa afstöðu minni til kosningarinnar, en álít allar kappræður um það árangurslausar; enda lítið vafamál, hvernig atkv. muni falla.