17.03.1924
Efri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (1908)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Forsætisráðherra (SE):

Háttv. frsm. meirihl. (EP) gat þess, að jeg hefði sagt hið sama og jeg hefði svo oft sagt áður. Þetta sama hefir hv. 4. landsk. (JM) tekið fram um mig í sambandi við önnur mál. Jeg verð að játa, að þetta er satt. Skoðanir mínar í þessum málum hafa ekkert haggast, og fæ jeg ekki betur sjeð, en það sje mjer fremur til lofs en lasts.

Hv. þm. Vestm. (JJós) sagði, að landsmenn gætu af skjalapartinum og atkv.gr. sjeð afstöðu þm. til mála þeirra, sem fyrir koma. En því er til að svara, að flestar atkvgr. fara fram án nafnakalls, svo að ómögulega verður af þeim sjeð afstaða hvers einstaks þm.

Hitt, að ræður þm. í Þingtíðindunum sjeu alt öðruvísi en þær eru fluttar, mun langt frá því að vera í samræmi við sannleikann. Jeg hygg, að þm. geri yfirleitt lítið að því að breyta ræðum sínum og að þjóðin fái því mjög rjetta mynd af því, sem haldið er fram á þingi. Jeg vil ekki segja neitt um okkar góðu þingskrifara, en þó verð jeg að segja, að ekki er jeg hrifnari af ræðum mínum eins og þær koma frá þeim, heldur en þær eru fluttar. Og jeg held, að flestir kjósi að fá ræður sínar eins og þeir halda þær, og vilji þar engu breyta.

Það má segja hið sama um allar þessar till., sem bornar eru fram í hinu heilaga nafni sparnaðarins, að enda þótt sumar þeirra sjeu góðar, þá mega menn ekki halda, þó að þær verði allar samþyktar, þá muni þær nokkuð stuðla að því að lækna fjárhag landsins í augnablikinu. Til þess þarf miklu víðtækari og alvarlegri ráðstafanir. Hitt er sjálfsagt, að við þurfum að laga embættastakk þjóðarinnar, svo að hann verði við hennar hæfi, vegna framtíðarinnar.

Það eru ein rök, sem jeg hefi altaf haldið fram gegn þessu máli, og þau eru óhrekjandi. Ef hætt verður að prenta umræðupart Þingtíðindanna, þá hættir þjóðin að fylgjast með störfum þingsins. Móti þessu þýðir ekkert að mæla. Þingið verður lokað fyrir þjóðinni. Það þýðir heldur ekkert að halda því fram sem rökum, að fáir lesi Þingtíðindin. Allir leiðandi menn úti um land lesa þau, og það skiftir einmitt svo miklu máli.

Þá hefir verið talað um, að umræður hafi enga þýðingu hjer á þingi, yfirleitt. Kanske næsta sporið verði að ákveða með þingsköpum, að enginn megi halda hjer ræðu, heldur að eins greiða atkv., en þá verður væntanlega ákveðið, að nafnakall skuli viðhafa við allar atkvgr. — Nei, þrátt fyrir allan sparnað, þá eru vissir hlutir, sem þar má ekki draga undir, og þar á meðal er einmitt prentun Þingtíðinda. Þar sem kjósendur hafa svo mikið vald í stjórnmálum sem hjer, væri slíkt ósæmilegt.

Jeg skal svo ekki lengja umr. frekar, og það því fremur að jeg veit, að frv. þetta nær aldrei að komast í gegn um hv. Nd., enda þótt jeg sje ekki spámannlega vaxinn að dómi hv. frsm. meirihl. (EP).