19.03.1924
Efri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (1918)

65. mál, Alþingistíðindi, niðurfelling umræðuparts

Ingvar Pálmason:

Það má ef til vill segja, að það sje að bera í bakkafullan lækinn að fara að auka frekar á þær umræður, sem þegar eru orðnar um þetta mál hjer í þessari háttv. deild. En þar sem jeg hefi alt af verið á móti þessu máli við allar umr. þess, og verð enn, vil jeg með nokkrum orðum skýra afstöðu mína.

Skal jeg þá fyrst leyfa mjer að mótmæla þeirri staðhæfingu, sem háttv. flm. frv. þessa hafa notað sem eina aðalástæðuna með því, sem sje þeirri, að Þingtíðindin sjeu ekki lesin alment úti um land. Því að jeg veit, að í mínu kjördæmi og annarsstaðar, sem jeg þekki til, eru þau lesin alment. Og svo hygg jeg að muni vera þar, sem kjósendur hafa náð nokkurn veginn andlegum þroska.

Þá hefir því verið haldið fram, að þau hlytu að vera lítið lesin, af því að svo fá eintök af þeim bærust út um land. En þess ber að gæta, að þau tvö eintök, sem send eru í hvern hrepp á landinu, eru skoðuð, eins og þau líka eru, almenningseign, og ganga því milli sveitarmanna, oft og tíðum þangað til lítill urmull er eftir af þeim. Þetta er því alt öðru máli að gegna, en ef einstakur maður í sveitinni kaupir bók, t. d. Faust. Þá eru slíkar bækur lítið lesnar, af því að þær eru einstaklings eign, og almenningur telur sig engan rjett hafa á þeim.

Mjer dettur ekki í hug að bera brigður á það, sem háttv. 1. þm. Rang. (EP) lýsti yfir, að Þingtíðindin væru litið lesin í kjördæmi hans, því að það er eflaust satt. En mjer datt í hug málshátturinn: „Oft má satt kyrt liggja,“ því að slík yfirlýsing sannaði ekkert annað en það, að kjósendur hans væru ekki um of andlega þroskaðir, og má vel vera, að hann hafi síðastliðið haust notið þessarar pólitísku vanþroskunar að einhverju leyti.

Þá vil jeg aðeins minnast á sparnaðarstefnu þá, sem frv. markar. Stefnir hún einungis að því að spara á landsmönnum utan Reykjavíkur. Hefðu því háttv. flm. ef þeir hefðu viljað vera sjálfum sjer samkvæmir, átt að leggja til, að áheyrendapöllunum hjer væri einnig lokað. Því að það væri líka sparnaður fyrir Reykvíkinga að þurfa ekki að tefja sig með því að vera að hlusta á umræðurnar. Í því væri líka fólgið meira jafnrjetti, því að úr því að þinginu er lokað fyrir nokkrum hluta landsmanna, má alveg eins loka því fyrir öllum.

Jeg skal nú ekki láta fara fyrir mjer, eins og fyrir hæstv. forsrh. (SE) við 2. umr. þessa máls hjer í deildinni, að fara að spá um afleiðingar þessa máls, enda færist mjer það ekki, því að þó jeg sje að miklum mun minni vexti en hæstv. forsrh., þá mun jeg þó tæplega vera nægilega væskilslegur til þess að verða úrskurðaður af hv. 1. þm. Rang. (EP) „spámannlega vaxinn“. Skal jeg því engu spá. En það er trú mín — og jeg hefi ekki heyrt getið um, að menn þyrftu að hafa neinn sjerstakan vöxt eður vaxtarlag til þess að geta talist góðir trúmenn — að þó aldrei nema samþykt verði nú að fella niður prentun umræðuparts Alþingistíðindanna, þá verði það ekki lengi, sem kjósendur líða slíkt. Ennfremur er það trú mín, að háttv. flm. hafi með frv. þessu lagt til efniviðinn í sína eigin pólitísku líkkistu.