02.04.1924
Neðri deild: 40. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

1. mál, fjárlög 1925

Jakob Möller (framh.):

Jeg var að tala um iðnskólann og átti aðeins eftir að minna á það, hve það sje illa viðeigandi fyrir Alþingi að lækka nú styrkinn til þessarar stofnunar, rjett eftir að Iðnaðarmannafjelagið hefir gefið ríkinu svo dýra og höfðinglega gjöf sem minnisvarða Ingólfs Arnarsonar.

Jeg ætla svo að víkja með nokkrum orðum að því, sem hv. frsm. (ÞórJ) sagði um veðurathuganastöðina. Hann kvað nefndina ekki mundu áfellast stjórnina, þótt hún greiddi eitthvað umfram þessar 20 þús. til stöðvarinnar. Jeg hefði nú haldið, að samkvæmt stefnuskrá hæstv. fjrh. (JÞ), þá kysi hæstv. stjórn heldur, að þingið hækkaði þennan lið nú þegar, heldur en að fara nú strax að gera ráð fyrir umframgreiðslu.

Þá vil jeg víkja að því, sem hv. frsm. sagði um útgáfuna á Lögum Íslands. Hann kvað hafa átt að gefa þau út fyr, en ekkert orðið úr því. Þetta stríðir ekkert á móti fjárveitingu nú, því auðvitað verður ekkert greitt, ef útgáfunni yrði aftur frestað. Hitt er víst, að það er viðurkend nauðsyn að gefa út þetta verk, og má það helst ekki dragast lengur. Sú nauðsyn var líka síðast viðurkend með fjárveitingunni í fyrra. Það er og bein siðferðileg skylda þingsins að halda áfram með þetta og veita styrkinn, því ella myndi sá maður, sem keypt hefir útgáfurjettinn, verða fyrir óveröskulduðu tapi.

Og sje það meining háttv. nefndar að svifta þessa útgáfu ekki alveg styrknum, þá er engin ástæða til að fresta þessu og gera með því tjón þessum manni, allra síst þar sem hjer er aðeins um einar 1000 kr. að ræða.

Jeg vil svo víkja með nokkrum orðum að till. hæstv. fjrh. Hann kvað það ekki vera í fyrsta sinn hjer, sem farið væri inn á þá braut að breyta með fjárlögum ákvæðum gildandi laga, og þessu til stuðnings vitnaði hann í það, að á þinginu 1920 hefði með fjárlagaákvæði verið breytt lögum um meðlag með sjúklingum á Kleppi. Það er engin sönnun þess, að þetta sje löglegt, þótt svo hafi verið gert þá. Var það og í fylsta máta ólöglegt og myndi sjálfsagt ekki hafa náð fram að ganga, ef verulegum andmælum hefði verið hreyft gegn því og bent á ólögmæti þess. Get jeg þessu máli til stuðnings vitnað í ræðu háttv. frsm. fjárveitinganefndar á síðasta þingi. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessu ákvæði hefir aldrei verið breytt, en nú er farið að taka upp nýjan sið í fjárlögum og hækka þessa meðgjöf með fjárlagaákvæði einu .... Jeg efast um, að fjárlögin geti breytt ákvæðum eins og þessu í öðrum lögum, og út frá mínu leikmannsviti sjeð, hugsa jeg, að ef hreppsfjelög hefðu farið í mál út af þessu, þá hefðu þau ekki þurft að greiða nema 50 aura á dag.“

Af þessu sjest, að þetta er ekki í fyrsta sinn, sem þessi aðferð er vefengd. Hitt getur altaf komið fyrir, að þing af vangá fari svo að ráði sínu, en það verður engu löglegra fyrir það. Geri jeg jafnvel ráð fyrir, að nú hefði getað farið svo, ef ekki hefði verið um svo viðkvæmt mál að ræða sem prentun Þingtíðindanna. Og jeg veit ekki einu sinni, hvernig farið hefði, ef þessi till. hefði verið það fyrsta, sem fram var borið í málinu á þessu þingi. Það er óvíst, að þá hefði verið athugað, að þessi aðferð er óheimil. Því það er einmitt þetta, að till. kemur fram eftir að nýbúið er að fella hjer í deildinni frv. sama efnis, sem hefir vakið athygli manna á því, hve þessi aðferð er óviðurkvæmileg. Það er nefnilega auðsjeð, að hæstv. stjórn hefir hjer ætlað sjer að fara aftan að deildinni. Hún hefir með þessu gert tilraun til að þvinga ákvæði upp á löggjafarvaldið, sem það er áður búið að neita. Því svo stendur á hjer, að það væri sennilega unt að koma þessu í gegnum þingið með ákvæði í fjárlögunum, þótt ekki sje hægt að koma því fram með algengu lagaleiðinni. Því þótt ekki sje nægur atkvæðafjöldi til að koma því í gegnum þessa hv. deild, þá stendur nú svo á, að það mundi væntanlega sleppa í gegn í sameinuðu þingi með eins atkv. mun. Það er þetta, sem hæstv. stjórn hefir ætlað sjer, enda myndi henni hafa tekist að ná þannig einu atkv. umfram, af því að einn hv. þm. er veikur. (Fjrh. JÞ: Þetta er tómur skáldskapur). Það er þá hæstv. stjórn, sem hefir lagt til yrkisefnið. Jeg skal þó ekki fullyrða, að hjer sje um slíkan útreikning að ræða, en sje því ekki svo varið, þá verður ekki komist hjá því, að hjer virðist bóla á þeirri fljótfærni hjá hæstv. fjrh., sem háttv. þm. Str. var að tala um áðan. Hæstv. fjrh. vildi neita því, að hjer væri um lagabreytingu að ræða. Það liggur þó í augum uppi, að svo er, því lögin segja hreint og beint, að umræðupartinn skuli prenta, en till. heimilar aftur á móti að fella niður prentunina. Það er því hjer um það að ræða að breyta þvert á móti lögum, og er því annaðhvort um ólöglega ráðstöfun eða gagngerða breytingu að ræða, og verður því ekki um þetta atriði deilt.

Það er þó enn ómótmælanlegra, að um lagabreytingu er að ræða í hinni brtt. hv. fjrh. Jeg las upp síðast tvær greinar úr lögunum um stofnun landhelgissjóðs, og vil jeg nú á ný vekja athygli á þeim. Í 4. gr. í lögunum frá 1913 er það tekið fram, að sjóðnum skuli á sínum tíma varið til eflingar landhelgisvörnum Íslands. Í lögunum 1915 er orðalagið aftur á móti svo, að sjóðnum skuli á sínum tíma varið til að koma upp tveimur nýjum strandgæsluskipum, er notuð verði til að verja landhelgina. Í báðum stöðum er það svo tekið fram, að löggjafarvaldið ákveði, hvenær sjóðurinn taki til starfa. Það er því auðsjeð, að breytingin, sem gerð var 1915, fer í þá átt, að tryggja enn betur, að þessu fje verði fyrst og fremst varið til þess að koma upp skipum til strandvarna. Að því búnu má auðvitað verja fje úr sjóðnum til að reka strandvarnirnar. Það er því engum blöðum um það að fletta, að það þarf að breyta þessum lögum, til þess að hægt sje nú þegar að fara að verja þessu fje til rekstrarins. Og það er löggjafarvaldið sjálft, sem verður að ákveða þetta, en ekki sá sjerstaki þáttur löggjafarvaldsins, sem heitir fjárveitingarvald. Því það gilda alt aðrar reglur um hið almenna löggjafarvald heldur en um fjárveitingarvaldið, og má af því sjá, að til er ætlast, að þessu tvennu sje ekki blandað saman.

Að því er snertir þá röksemd, að ríkið hafi nú þegar komist yfir skip, sem haft sje til strandvarna, þá er því að svara, að það skip er ekki undir umráðum stjórnarinnar, nema að því leyti, sem eigendur þess vilja leyfa, enda var þetta skip líka upphaflega keypt í alt öðrum tilgangi en þeim, að gæta landhelginnar. En hvað sem um það er, þá verður sjóðurinn ekki látinn taka til starfa, nema lög sjeu sett þar um af löggjafarvaldinu. Það er bert, að fjárveitingarvaldið og löggjafarvaldið er í raun og veru sitt hvað, með því að sjerstakar reglur gilda um hvort fyrir sig. Þannig getur fjárveitingarvaldið tekið ákvörðun í sameinuðu þingi með einföldum meiri hluta. En löggjafarvaldið ekki nema með ákveðnum meiri hluta — 2/3 atkvæða. Það er því ómögulegt að halda því fram, að hjer sje um eitt og sama að ræða. En það er þó einmitt þetta, sem hæstv. fjrh. fer hjer fram á, að nota ekki löggjafarvaldið, heldur fjárveitingarvaldið, til þess að breyta almennum lögum. En til þess hefir fjárveitingarvaldið engan kraft. Það ræður ekki um neitt annað en fjárveitingar.

Jeg sje, að frv. það, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) ber fram um breyting á lögum um landhelgissjóðinn, er flutt í því skyni að bjarga þessu við. Háttv. flm. þessa frv. gerir hjer skýran mun, því að breyting sú, sem hann vill gera á þessum lögum, er í því fólgin, að það skuli vera fjárveitingarvaldið, sem ákveður, hvenær landhelgissjóðurinn taki til starfa.

Eins og jeg sagði í fyrstu ræðu minni, þá er andstaða mín móti þessari tillögu ekki af því sprottin, að jeg sje því í sjálfu sjer andvígur, að eitthvert fje sje tekið úr landhelgissjóði til strandvarna, heldur einungis af því, að jeg tel till. ranglega fram borna. Og einmitt af þeirri ástæðu hefir háttv. 1. þm. Árn. borið fram frv. sitt. Og eins hefi jeg leyft mjer að koma með till. á þskj. 292 um það, að tillaga hæstv. fjrh. um þetta orðist svo, sem þar er greint. En nú er jeg í dálitlum vafa um það, hvort jeg eigi að halda till. áfram, vegna þess, að jeg hefi orðið þess var, að hv. sjávarútvegsnefnd vill helst, að fjárframlagið til strandvarna sje óbreytt eins og það stendur nú í fjárlagafrv., hvað sem líður framlagi úr landhelgissjóði. Sannast að segja hefði jeg kosið, að fjárveitingin hefði ekki verið lækkuð eins mikið og gert hefir verið. Jeg hefði viljað, að staðið hefðu 75 þús. kr., í stað 50 þús., gegn jafnmiklu úr landhelgissjóði. En því má enn breyta, þó svo færi, að till. yrði nú samþykt móti vilja sjávarútvegsnefndar. Upphæðina er hægt að hækka í hv. Ed., eða síðar hjer í deildinni. Jeg læt enn óákveðið, hvort jeg tek till. mína aftur eða ekki.

Í því sambandi að jeg mintist á sjávarútvegsnefnd, þá minnist jeg þess, að hæstv. fjrh. gat þess til stuðnings sínum málstað, að sú nefnd væri sjer sammála um það, að taka fje til strandvarnanna úr landhelgissjóði á þennan hátt, með einföldu fjárlagaákvæði. Jeg leyfði mjer að skjóta því fram, að nefndin hefði ekki rannsakað málið, og hefi jeg komist að raun um, að svo er. Nefndin hefir ekki rannsakað það, hvort hægt væri að koma þessu svona fram, af þeirri ástæðu, að hún hvarf frá því að sinni, að landhelgissjóður legði fje til strandvarnanna. en ætlaði að framlagið úr ríkissjóði yrði látið nægja og vildi, að upphæðin, 120 þús., yrði látin halda sjer. Hinsvegar er augljóst, að breyta má lögunum um landhelgissjóðinn eins og hv. 1. þm. Árn. leggur til með frv. sínu.