22.02.1924
Efri deild: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (1940)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Jón Magnússon):

Því hefir verið haldið fram, að ekki væri rjett að stofna til nýrra, almennra kosninga nú, svona alveg eftir nýafstaðnar kosningar. Jeg skal vitanlega játa það, að heppilegra hefði verið, ef breyting þessi hefði verið samþykt í fyrra. Mjer finst þessi ástæða samt ekki fyllilega á rökum bygð. Í því sambandi hefir verið haldið fram, að nýjar kosningar hefðu svo mikinn kostnað í för með sjer, að ógerningur væri þess vegna að samþykkja stjórnarskrárbreytingu nú þegar. Jeg get ekki enn fallist á, að það sje nægileg ástæða. Fyrir ríkissjóð er kostnaðurinn ekki mikill. Að vísu kosta alþingiskosningar í kaupstöðum talsvert, en svo er um bæjarstjórnarkosningar einnig; og er hvorttveggja borgað af einstökum mönnum. Í sveitum er kostnaðurinn við alþingiskosningar ekki ýkjamikill, að jeg hygg.

Þá er sú ástæðan, sem mjög var notuð gegn stjórnarskrárbreytingunni í fyrra, sú, að stjórnarskráin væri ung og hefði fengist eftir mikla baráttu. En þar til er því að svara, að sú barátta stóð aðallega um sjálfstæðismálið, en ekki um stjórnarskrána sjálfa í raun og veru. En nú er það úr sögunni.

Annars veit jeg ekki betur en að aðrar þjóðir breyti stjórnarskrám sínum, þegar þeim þykir þess þörf. Þannig hafa t. d. Norðmenn breytt stjórnarskrá sinni fyrir eitt atriði, og fleiri þjóðir hafa gert svipað. Nei, spurningin verður einungis sú: er þetta þarft eða ekki? Sje þörf á breytingunni, er sjálfsagt að framkvæma hana, hvort sem kosningar eru nýafstaðnar eða ekki.

Þá hefir mjög verið talað um, að óhæfilegt væri að hafa ábyrgðarlausan landritara, er gegni störfum ráðherra í fjarveru hans. Sje nú litið á sögu annara þjóða, er það ekki vanalegt, að ráðherrar sjeu látnir sæta ábyrgð fyrir gerðir sínar. Eru því fá dæmi þess, að hin sjerstaka ráðherraábyrgð sje framkvæmd. Annars lít jeg svo á, að lítill munur sje í framkvæmd á hinni pólitísku ábyrgð ráðherra og ábyrgð þeirri, sem hvílir á embættismönnum yfirleitt. Vitanlega hefði landritari embættisábyrgð.

Þá kem jeg aftur að því atriði, að ekki megi breyta stjórnarskránni, af því að hún sje svo ung. En því skyldi ekki mega breyta henni fyrir þá sök? Væri kannske meiri ástæða til að breyta henni, ef hún væri gömul og hefði reynst vel? Jeg held ekki. Þess ber nú að gæta, að þeir tímar, sem við lifum á, eru svo breytilegir, að varla eru dæmi slíks í hinni pólitísku sögu þjóðanna. Gæti þetta út af fyrir sig verið nægileg ástæða til að breyta þyrfti stjórnarskránni.

Þá vil jeg, að gefnu tilefni, geta þess, að jeg ber einn ábyrgð á þessari stjórnarskrárbreytingu, sem jeg ber fram. Stendur þar enginn flokkur á bak við, eins og virðist vera bak við hitt frv., sem fram er komið.

Þá vil jeg enn geta dálítillar breytingar, sem frv. mitt gerir ráð fyrir, en jeg gleymdi að minnast á í framsöguræðu minni. Breyting þessi gengur í þá átt, að forsætisráðherra geti komist af með að fara eina ferð utan á ári hverju. Hún er því sú, að hann megi fela öðrum að bera fram fyrir konung lög, lagafrumvörp og meiri háttar málefni. Það hefir vitanlega verið venja, að forsætisráðherra færi utan og gerði þetta sjálfur. En jeg tel engan skaða, þó að öðrum væri falið þetta, sem ekki bæri beinlínis pólitíska ábyrgð.

Að lokum vil jeg undirstrika það, að það fyrirkomulag, sem áður var, að hafa einn ráðherra og landritara, mun reynast fult eins trygt og þó að ráðherrarnir væru fleiri en einn.