15.03.1924
Efri deild: 20. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (1947)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Forsætisráðherra (SE):

Jeg vil aðeins gera stutta aths., en vísa að öðru leyti til þess, sem jeg hefi áður sagt um þetta mál. Jeg get sagt eins og hv. 4. landsk. (JM), að ekkert nýtt hefir komið fram í þessu máli. Jeg vil benda á það, að enn er skamt síðan vjer fengum það stjórnarfyrirkomulag, sem nú er. Finst mjer það mjög athugavert að gefa sjer eigi tíma til þess að athuga, hvort þetta fyrirkomulag sje rjett, eða hvort vjer eigum aftur að hverfa til hins gamla. En svona er þetta á öllum sviðum. Vil jeg t. d. benda á hæstarjett. Eftir þessi örfáu ár sýnist mönnum nú lífsnauðsyn á því að rjúka í að fara að breyta honum. Jeg veit, að mönnum hættir mjög til að sjá fortíðina í gyllingum, og oft hefir mátt heyra menn tala um landshöfðingjadæmið eins og þá hafi verið einhver alsæla. Það eru aurarnir í kassanum, sem draumarnir snúast um. En beri maður ástandið, sem þá var, saman við það, sem nú er, munu fáir fella saknaðartár. Hvar voru framkvæmdirnar þá? Hvar voru brýrnar? Hvar vegirnir? Hvar samgöngurnar á sjó? Og það, sem er höfuðatriðið, hvernig leið fólkinu þá? Liðun þess var dálítið öðruvísi en nú á sjer stað. Fjárhagurinn, fullyrða menn, stóð með meiri blóma meðan ráðherrann var einn. Þar af er sú ályktun dregin, að það sje best í fjárhagsörðugleikunum að hafa einn ráðherra. En því er gleymt, að eftir að 3 ráðherra stjórnin komst á laggirnar, byrjaði hjer örðugasta ástand, sem nokkurn tíma hefir verið í heiminum. Engum er þetta kunnugra en hv. 4. landsk. (JM). Ýmis þeirra mála, sem komu til kasta ráðherra á meðan hann var einn, voru hreinasti barnaleikur hjá þeim málum, sem oft daglega þurfti að ráða til lykta, eftir að ráðherrar voru orðnir þrír.

Þetta er vert að taka til athugunar. Það eru rök, sem erfitt mun verða að hrinda. Þær ákvarðanir, sem taka verður í æðstu stjórn landsins, skifta svo miklu máli, að leggja verður mikla áherslu á að gera þessar ráðstafanir sem tryggilegastar. Og það er miklu meiri trygging að láta 3 menn gera út um málin, heldur en einn. Þetta eru rök, sem erfitt er að hrekja.

Jeg sje því ekki neinar ástæður, er rjettlætt gætu breytingar á stjórnarskránni. Mun jeg að sinni eigi fjölyrða um þetta; býst við, að mjer muni gefast kostur á því seinna á þessu þingi.