27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (1954)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Árnason:

Jeg geri ráð fyrir, að það verði ef til vill litið svo á, að við flm. að þessum tillögum höfum færst nokkuð mikið í fang að standa hjer augliti til auglitis við hina sex hv. landsk. þingmenn og ætla að ráða niðurlögum þeirra, þar sem þeir eiga sjálfir atkvæðisrjett um málið. En við það verður að sitja. Við þykjumst hafa ýmsar afsakanir og ástæður fyrir þessu.

Fyrst og fremst er það, að það fyrirkomulag, sem hjer er um að ræða, er ekki eldra en átta ára gamalt, og því ekki búið að vinna sjer neina hefð. En þessi 8 ára reynsla hinsvegar búin að sýna, að ekki er óeðlilegt, að slíkar tillögur sem þessar, um afnám landkjörsins, komi fram.

Önnur ástæða til þess, að jeg varð til þess að gerast flm. að þessum till., var sú, að jeg sá það fyrirfram, að stjórnarskrárfrv. mundi fara á þann veg út úr þessari hv. deild, að jeg myndi ekki verða ánægður með það. Á jeg þar við það atriði frv. að lengja kjörtímabil allra þingmanna um þriðjung frá því, sem nú er, bæði hinna kjördæmakosnu og landskjörnu. Þegar sjáanlegt var, að þessu yrði ekki breytt í hv. deild, virtist okkur flm. rjett að gera tilraun til að draga úr þeim skaða, sem við teljum að sje að lengingu kjörtímabilsinis, með því að fella niður landskjörið.

Það hefir verið sagt, og með rjettu, að þessar till. miði til að spara fje. En jeg tek það fram, að fjárspámaðurinn einn út af fyrir sig væri ekki forsvaranlegur, og ekki rjettmætt að afnema landskjörið, ef hægt væri að sanna, að af því myndi hljótast þjóðhagslegt tjón. Þessvegna er ekki víst, að sparnaðurinn, þótt hann sje þungur á metunum, sje aðalatriðið í þessu máli. Fyrst er að líta á, hvort það sje fært að fækka þingmönnum yfirleitt; hvort þjóðmálunum sje eins vel borgið, þó að þingmenn sje færri en nú. Á löngu tímabili voru þingmenn aðeins 36. Ef það tímabil er borið saman við síðasta tíma, síðan þingmönnum var fjölgað, virðist mjer útkoman af fjölguninni sje sú, að afgreiðsla mála sje tafsamari nú, fleiri óþörf mál flutt inn á þing, fleiri óþarfar ræður, lengri Alþt. og lengri þing, án þess þó, að það hafi náðst, sem er aðalatriðið: meiri vandvirkni í löggjafarstarfinu. Þá liggur hæst fyrir að spyrja: Er fært að fækka þingmönnum á þann hátt, sem hjer er farið fram á? Í því efni er vert að benda á það, að hið svokallaða landskjör, sem nú gildir, er ekkert annað en leifar frá þeim tíma, er konungur tilnefndi sjálfur nokkra af þingmönnunum. Má segja, að það skipulag hafi verið bygt á rústum einveldistímanna, og hafi á tímabili verið eðlilegt millistig. Það hefir ekki getað komið eins mikið í bága við það stjórnskipulag, sem þá ríkti, eins og þetta skipulag gerir nú. Það sýnist því ekki sjerstök nauðsyn á að halda í þetta lengur. Það mátti svo segja um hina konungkjörnu þingmenn, að þeir væru oftar í samræmi við vilja stjórnarinnar en aðrir þingmenn, en það er meira en hægt er að segja, að hið núverandi skipulag tryggi. Má benda á það, að geti myndast meirihluti í þinginu, svo að í sameinuðu þingi sje hreinn meirihluti ráðandi, og hafi afl til að mynda stjórn, getur staðið svo á, að landsk. þm. sjeu þann veg í flokkum í Ed., að stjórnin fái ekki komið fram neinum áhugamálum sínum í þeirri deild, þó að hún gæti það í Nd. Þetta fyrirkomulag gæti því orðið því til fyrirstöðu, að nokkur meirihl. stjórn geti myndast í þinginu. Jeg býst við, að allir viðurkenni þó, sem um það mál hafa hugsað, að það sje mikil nauðsyn á, að með völdin fari á hverjum tíma hrein meirihlutastjórn. Því var haldið fram, og hefir eflaust átt svo að vera, að landskjörið myndi verða kjölfesta þingsins. En reynslan er búin að sýna, að kjölfesta þessi er ekki mikils virði. Í sambandi við það detta mjer í hug orð hv. 1. landsk. (SE). Hann sagði, að það mætti búast við því, að þessir menn horfðu með miklu meira víðsýni yfir þjóðmálin heldur en hinir kjördæmakosnu. Jeg vil þá spyrja hv. 1. landsk.: Er það reynslan, að landsk. þm. horfi með svo miklu víðsýni yfir þjóðmálin nú að þeir sleppi öllum flokksböndum? Jeg held ekki. Reynslan er búin að sýna, að þeir haga sjer ekki öðruvísi en kjördæmakjörnir; eru flokksmenn og fylgjast með sínum flokki.

Eins og kunnugt er, eru þeir kosnir með hlutfallskosningu; og hver verður niðurstaðan? Sú, að alt stefnir í þá átt, að allir landsk. þingmenn eigi heima í Reykjavík, og þó að jeg efist alls ekki um, að í Reykjavík sjeu til margir góðir og gegnir menn, vil jeg segja það fyrir mig, að jeg vil ekki styðja að auknu Reykjavíkurvaldi í þinginu.

Það hefir verið minst á það, hvað mikill kostnaður leiði af þessu kosningaumstangi á einum þrem mönnum. Það mun líklega kosta hvorki meira né minna en 20–30 þús. kr. að koma hverjum þeirra á þing. Í sambandi við þetta er vert að minna á það, hverjir það eru, sem kjósa landsk. þingmenn. Eins og kunnugt er, eru það einungis menn og konur, yfir 35 ára að aldri, og á það eitt með öðru að vera trygging fyrir kjölfestunni í þinginu. En þegar nánar er athugað, er þetta grátbroslegt. Það eru örvasa gamalmenni, menn sem aldrei hafa fylgst með þjóðmálum og engin skilyrði hafa til þess að gera sjer þeirra nokkra grein, sem eiga að kjósa. En margir menn, sem hafa gengið gegnum æðri skóla landsins, og sitja í embættum, t. d. sýslumenn, læknar, prestar, og jafnvel sumir þingmenn, hafa ekki kosningarrjett. Þetta er óneitanlega alleinkennilegt fyrirkomulag. Jeg held, að þetta landskjörsskipulag hafi verið tekið upp í hugsunarleysi, í staðinn fyrir konungskjörið.

Jeg hefi nú drepið á helstu ástæður, sem fyrir okkur vaka, og fyrir því, að jeg varð til þess að flytja þessar till. Jeg vil taka það mjög skýrt fram, að við tveir flm. höfum verið hjer einir í ráðum, og engir aðrir bera þar ábyrgð á. Þetta er ekki gert í samráði við okkar flokk eða þá hv. landsk. þm., sem sæti eiga hjer í deildinni.

Jeg hefi ekki meira að segja um þetta mál; en það var eitt atriði í ræðu hæstv. forsrh. (JM), sem jeg vildi leiðrjetta. Hann mintist á, að skeð gæti, að till. væri fleygur. Jeg ætla ekki að fara að afsaka okkur flm. gagnvart þessu, aðeins taka það fram, að jeg er reiðubúinn til að greiða atkvæði með stjórnarskrárfrv., jafnvel þótt okkar brtt. verði feldar, og jeg býst við, að hv. samflm. minn sje það einnig.