27.03.1924
Efri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (1960)

21. mál, stjórnarskipunarlög

Eggert Pálsson:

Þó að jeg hafi haft þann heiður að eiga sæti í allshn. þessarar hv. deildar, sem mál þetta hafði til meðferðar, þá hefi jeg þó ekki tekið til máls um það fyr, aðallega vegna þess, að mjer hefir fundist sem hv. 5. landsk. (JJ) og hæstv. forsrh. (JM) veitti ekki af tímanum, til þess að leiða saman hesta sína.

Það eru aðallega tvö atriði, sem gefa stjórnarskrárbreytingu rjett á sjer. Hið fyrra er fækkun þinga.

Þegar sú breyting var á gerð, að snúið var að reglulegu þinghaldi á hverju ári, þá vakti það aðallega fyrir mönnum, að með því móti yrðu þingin styttri heldur en þau höfðu áður verið, svo að útkoman yrði sú, að breytingin mundi ekki valda ríkissjóði miklum kostnaði. Reynslan hefir orðið gagnstæð þessum vonum manna. Þingin hafa, — að einu undanskildu, eða því, sem sjerstaklega var kallað saman vegna sambandslaganna, — orðið lengri en áður tíðkaðist. Og þessi reynsla hefir orðið til þess, að háværar raddir heyrast hvaðanæfa af landinu, um að horfið verði aftur að því fyrirkomulagi, sem áður var, að halda reglulegt þing aðeins annaðhvert ár, og þá jafnframt lengja kjörtímabilið. Allir, sem jeg hefi átt tal við um þetta mál, líta svo á, að ef þing yrði aðeins haldið annaðhvert ár, þá væri of stuttur reynslutími fyrir þingmenn, sjerstaklega nýja, að eiga aðeins sæti á tveim þingum, heldur yrði að reyna þá betur, sem og var meðan gamla fyrirkomulaginu var haldið.

Hitt atriðið, sem gefur breytingu á stjórnarskránni rjett á sjer, er það að breyta um stjórnarfyrirkomulag, þannig, að aftur verði horfið að því að hafa aðeins einn ráðherra, og með honum landritara, svo sem áður var, og þótti gefast vel. Þegar ráðherrum var fjölgað upp í þrjá, þá kom það til af því, að mönnum þótti það fyrirkomulag tryggara, vegna hinna ytri kringumstæðna. Þá stóð stríðið sem hæst, og menn fundu, hversu afarnauðsynlegt það væri, að sem minstir flokkadrættir væru kring um stjórnina, svo að hún hefði betra næði á þeim mjög svo erfiðu tímum. Með því að hafa ráðherrana þrjá, gat hver flokkur fengið einn ráðherra, og á þann hátt gat stjórnin fengið meiri ró, meiri frið til þess að vinna verk sín heldur en áður var.

En brátt kom í ljós, að þetta fyrirkomulag var ekki heppilegt. Það leyndi sjer ekki, að með þessu móti var ábyrgðartilfinning ráðherranna ekki eins rík, sem og eðlilegt var, þar sem hver þeirra átti sitt flokksbrotið að baki sjer.

Hinsvegar leiddi af því, að glundroði varð mikið meiri en áður í stjórnmálunum innan þingsins. Og sá glundroði dreifðist svo aftur út meðal þjóðarinnar.

Margir hafa því óskað þess, að horfið væri að hinu gamla fyrirkomulagi með einum ráðherra og landritara, enda lá frv. þannig fyrir í sinni upphaflegu mynd. Þetta fyrirkomulag, að hafa einn ráðherra og landritara, fólst í 1. gr. þess.

En þessi grein frv. var feld þegar við 2. umr., og þegar svo var komið, fanst mjer frv. í raun og veru eyðilagt. En það var samt sem áður látið halda áfram, en svo lemstrað var það, að það var aðeins svipur hjá sjón, móts við það, sem það áður var, og getur vitanlega ekki staðist til langframa í þeirri mynd, sem það hefir nú fengið. Til þess að bætt verði úr göllunum, sem það hefir fengið, verður að samþykkja brtt. á þskj. 161, sem segir, hvernig að skuli fara, ef ráðherra deyr eða verður óstarfhæfur eða er erlendis.

Úr því jeg einu sinni er staðinn upp, vil jeg minnast nokkuð á brtt. þær, sem fram hafa komið á þskj. 169 og 189. Mjer finst, að hvorug þessi brtt. eigi í raun og veru nokkurn rjett á sjer, því að það hefir verið látið í ljósi af báðum málspörtum, að það eigi að gera sem minstar efnisbreytingar á stjórnarskránni, og alls eigi aðrar en þær, sem hafa alvarlegar óskir frá þjóðinni á bak við sig.

Brtt. um að afnema landskjörið finst mjer næsta varhugaverð. Mjer finst það hljóta að vera óheppilegt að láta nýkosið þing sjálft skapa höfuð sitt. Ef ætti að gera slíka breytingu á fyrirkomulagi þingsins, fyndist mjer rjettast að hætta að öllu leyti við efri deild, og hafa þingið aðeins eina málsstofu. En jeg skal þó taka fram, að jeg er einnig á móti slíkri breytingu, enda hygg jeg, að slíkt fyrirkomulag sje óvenjulegt í þingræðislöndunum. Það hefir verið minst á það hjer nú, við þessa umræðu, að slíkt fyrirkomulag væri á finska þinginu. En þó að svo sje, get jeg ekki talið það neina fyrirmynd.

Á móti þessari brtt. hefði verið ástæða til að koma fram með alveg gagnstæða brtt., þess efnis, að hafa alla efri deildina, — sem vitanlega þarf ekki að vera nema 12 þm. — landskjörna, og jeg get játað það, að til þess hefði jeg fyrir mitt leyti haft talsverða tilhneigingu, ef farið væri á annað borð að gera gagngerða breyting á stjórnarskránni.

Þegar ákveðið var að afnema hina konungkjörnu þm., var jeg slíku fyrirkomulagi fylgjandi. Mjer hefir altaf fundist, að með því einu móti væri þess fyllilega gætt að mynda nauðsynlegt íhald og festu í þinginu, og vitanlega hefði landskjör ekki orðið neitt dýrara fyrir þjóðina, þó að landskjörnu þingmennirnir hefðu verið fleiri en þeir nú eru. En þó að mjer dytti í hug að koma með slíka breytingartillögu, þá vildi jeg ekki gjöra það, bæði sökum þess, að jeg vildi ekki verða til þess að tefja með því framgang málsins, eins og máske hefði getað orðið, og mjer skildist, að allir vildu gera sem minstar efnisbreytingar við stjórnarskrána. En í öðru lagi vildi jeg ekki koma með slíka brtt., af því að öllum slíkum breytingum fylgir sá höfuðókostur, að með þeim er eiginlega verið að koma aftanað þjóðinni, því að þessi hlið málsins hefir aldrei verið rædd meðal þjóðarinnar, og það hafa ekki komið neinar óskir um slíkar breytingar frá henni. Öðru máli er að gegna um fækkun ráðherra og þinga. Það mál hefir verið rætt mjög mikið úti um landið, og það er óhætt að segja, að það liggi fyrir mjög eindregnar óskir um þær breytingar báðar frá þjóðinni sjálfri.

Jeg mun því greiða atkvæði mitt móti þessari brtt., og vona, að sem flestir aðrir hv. deildarmenn verði mjer samtaka um það. En verði aftur á móti sú raunin á, að þessar brtt. verði samþyktar, að jeg ekki tali um, ef svo ólíklega kynni að takast, að brtt. á þskj. 161 verði feld, þá get jeg ekki með nokkru móti greitt stjórnarskrárbreytingunni atkv. mitt í þetta sinn. Því að þá er frv. orðið sú handarskömm, sem ómögulegt efað forsvara.