28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í C-deild Alþingistíðinda. (2060)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Frsm. minnihl. (Bernharð Stefánsson):

Hv. frsm. meirihl. (SigurjJ) hefir lýst ástæðunum fyrir því, að nefndin klofnaði. Var það í raun og veru ekki nema eitt atriði, sem ágreiningnum olli. Öll nefndin var sammála um það, að ekki kæmi til mála, að bæjar- og sveitarsjóðir yrðu látnir greiða launabætur eftir embættisaldri. Því þeim ræður embættisaldur í þjónustu ríkisins, en ekki sama skólans.

Einnig var hún á eitt sátt um það, að fallast ekki á ákvæði 3. gr. um uppsagnarheimildina. Nefndin leit svo á, að valdið til að segja upp starfinu ætti að vera í höndum þess, sem það veitti. Annars hefir nefndin ekki rætt þetta mál eftir að brtt. á þskj. 232 er fram komin, og því ekki tekið afstöðu til hennar.

Hinsvegar sáum við tveir nefndarmenn ekki ástæðu til að leggja á móti því, að dýrtíðaruppbótin yrði greidd af sömu aðiljum og eftir sömu hlutföllum sem launin sjálf. Dýrtíðaruppbótin er í sjálfu sjer ekki annað en uppbætur á launin, svo þau hafi fult gildi fyrir þann, sem þau fær. Því tel jeg þetta ákvæði hafa rökrjetta hugsun í sjer falda, og sem leiða má út af, að uppbótin greiðist af sömu aðiljum sem launin.

Hv. frsm. meirihl. kvað ekki rjett að færa þessi útgjöld yfir á sveitar- og bæjarsjóði, þar sem hagur þeirra væri svo þröngur, og þau hefðu ekki tækifæri til að hækka tekjur sínar í hlutfalli við dýrtíðina. Jeg skal fúslega viðurkenna, að fjárhagur bæja- og sveitarfjelaga er alt annað en góður, en hagur ríkissjóðs er það víst ekki heldur. Jeg hygg, að þar muni varla mega milli sjá. Og þegar alt kemur til alls, þá er það þjóðin sjálf, sem geldur, hvaðan sem uppbótin kemur. Þessi mótbára getur því tæplega talist veigamikil. Hvað því viðvíkur, að bæjar- og sveitarsjóðir hafi engin meðöl til að auka tekjur sínar, þá er það líka ofsagt. Munurinn er aðeins sá, að til að auka tekjur ríkissjóðs þarf að breyta lögum, en bæjar- og sveitarfjelögin fá sínar tekjur með því að jafna niður á menn útsvari eftir efnum og ástæðum, og þegar dýrtíðin eykst, þá hækka útsvörin að sama skapi. Og þegar dýrtíðin er alhliða, þ. e. a. s., þegar verð á afurðunum og innfluttum varningi helst í hendur, þá er engu erfiðara að greiða há útsvör en lág útsvör á venjulegum tíma. Jeg man það t. d., að aldrei mun mönnum hafa þótt eins ljett að greiða útsvör sín, þó há væru, og 1919. En vitanlegt er það, að þegar dýrtíðin er þannig, að ekki er tiltölulega jafnhátt verð á innlendum afurðum sem á aðkeyptum varningi, þá gildir þetta ekki.

Og enn er ein ástæðan ótalin. Með því fyrirkomulagi, sem nú er, verða sveitirnar fyrir misrjetti. Eins og nú standa sakir, þá verða sveitirnar að borga allan þann hluta af dýrtíðaruppbótinni, sem liggur í öðru en peningum, t. d. fæði og húsnæði. Aftur eru kaupstaðirnir lausir við að taka nokkurn þátt í greiðslu dýrtíðaruppbótar. Það mundi því komast meiri jöfnuður á milli sveita og bæja, ef þessi breyting kæmist á, og er það rjettlátt.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vil að lokum minna á, að minnihl. nefndarinnar vill gera nýja breytingu á lögunum. Er í 9. gr. þeirra ákvæði um, að laun kennara sjeu miðuð við það, að þeir kenni minst 6 mán. Nú hagar víða svo til í sveitum, að barnakennara er ekki þörf svo langan tíma. Því viljum við gera þá breytingu á þessu ákvæði, að þeir kennarar, sem ekki kenna í fulla 6 mán., fái þó hlutfallslega jafnmikil laun sem aðrir kennarar. En áður hefir venjan orðið sú, að þeir hafa ekki notið launa úr ríkissjóði. Afleiðing þessa hefir orðið sú, að sum hjeruð hafa reynt að halda uppi kenslunni í fulla 6 mán., þó þess hafi ekki gerst þörf, til þess að njóta hlunninda laganna. Hygg jeg, að þetta ákvæði 9. gr. hafi hvergi orðið til gagns, en víða til ógagns; sumstaðar orðið til að baka sveitafjelögunum óþörf útgjöld við það að hanga í þessu ákvæði, en önnur hafa tekið það ráð að fella niður kensluna. Hafa sum ekki getað fengið kennara nema með þeim skilyrðum, að þeim væri veitt staðan fyrir 6 mán., en þau þá ekki treyst sjer til þess. Sumstaðar er það líka svo, að einn kennari annar ekki allri kenslunni, en á hinn bóginn óþarft að halda tvo kennara við hana í 6 mán. Af þessum sökum ætla jeg, að brtt. okkar geti orðið til mikilla bóta í þessu efni, og treysti jeg því, að hv. dm. sjái, hversu rjettlát hún er og hversu óheppilegt það getur verið að einskorða launagreiðsluna við ákveðna tímalengd.

Jeg gæti hugsað mjer, að þetta ákvæði í 9. gr. 1. frá 1919 hafi upphaflega verið sett með það fyrir augum, að það stuðlaði að myndun sjerstakrar kennarastjettar, sem gæti litið á kenslustarfið sem sitt aðalstarf. En farkennarar til sveita geta það ekki hvort sem er. Að því leyti til er ákvæðið þýðingarlaust.

Jeg álít ástæðulaust að fjölyrða frekar um þetta mál, en jeg vona, að ef eitthvað af frv. fær að lifa, þá fái brtt. minnihl. við 1. gr. einnig að fljóta með.