28.03.1924
Neðri deild: 35. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (2074)

91. mál, skipun barnakennara og laun þeirra

Þorleifur Jónsson:

Það hafa þegar komið fram ýmsar mótbárur gegn frv. þessu, og hefir hv. þm. Str. (TrÞ) og hæstv. atvrh (MG) svarað ýmsum þeirra.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) leit svo á, að frv. þetta væri á takmörkum þess, að geta talist sæmilegt. Jeg veit náttúrlega ekki, hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu, en það veit jeg, að fjvn. var ekkert ósæmilegt í hug, þegar hún samdi frv. þetta. Hann taldi, að með þessu væri verið að vega aftan að fræðslulögunum. En jeg get frætt hann á því, að mikill meirihl. nefndarmannanna var mjög mótfallinn því að takmarka barnakensluna, en hinu bjóst hann við, að bæirnir, einkum hinir stærri kaupstaðir, myndu geta lagt meira á sig fyrir hana en þeir gera nú.

Þá taldi hv. sami þm. (MJ) ákvæðin í 3. gr. frv. sýna bera lævísi nefndarinnar. Jeg get nú ekki sjeð, að nein lævísi sje í því fólgin, þó dóms- og kirkjumálaráðherra sje heimilað að segja upp kennurum, eftir ósk skólanefnda. Jeg er þess líka fullviss, að sumstaðar myndi mega spara eitthvað í kennarahaldi, t. d. með því að láta börnin koma til kenslu annanhvern dag og komast þannig af með einn kennara í stað tveggja. En einmitt. það fyrirkomulag hefir góður kennari á Austurlandi, sem jeg hefi átt tal við, talið mjög heppilegt fyrir börnin. Jeg treysti því líka, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið myndi hafa umsjón með því, að öðrum kennurum væri ekki sagt upp en þeim, sem vel mætti komast af án eða óþarfir mættu teljast.

Aðalástæðan á móti frv. hefir þó verið talin sú, að enginn sparnaður væri að því. Það er vitaskuld, að einhver þarf að borga brúsann. En á það má minna, að fyrir 1919 urðu bæjar- og sveitarfjelög að borga mestallan kostnað af barnafræðslunni; þá var aðeins veittur lítill styrkur til hennar. Það er satt, að bæjar- og sveitarfjelög vantar fasta tekjuliði, en þau hafa þar á móti rjett til að leggja á menn aukaútsvar eftir efnum og ástæðum, og þó það þyki kanske ekki altaf koma sem rjettlátast niður, þá held jeg þó, að það sje engu óheppilegra öðrum gjöldum. Og jeg held, að ekki myndi nein þörf kensla falla niður við þetta fyrirkomulag í sveitunum eða stærri bæjum, heldur myndu menn reyna að kljúfa kostnaðinn.

Þá hjelt háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) því fram, að allri fræðslu í landinu myndi mjög hraka við þetta, eða jafnvel fara alveg í kaldakol. Við þetta er jeg ekki svo mjög hræddur. En það er þá heldur ekki góður vottur um ágæti þess fyrirkomulags á barnafræðslunni, sem nú er ríkjandi, ef það er satt, að það fari í vöxt, að börn sjeu fermd ólæs og óskrifandi, eins og sami hv. þm. (ÁÁ) sagði. Raunar hygg jeg, að slíkt þekkist mjög óvíða í sveitum, og var jafnvel fátítt áður en lögin gengu í gildi.

En frá sjónarmiði fjvn. er þetta auðvitað fyrst og fremst sparnaðarmál. Og þó kostnaðurinn við barnafræðsluna verði í sjálfu sjer samur eftir sem áður, þá lendir hann hjer eftir á fleirum og þó ekki þungt á neinum.

Viðvíkjandi brtt. þeirri við 1. gr. frv., sem fram er komin, skal þess getið, að bót er að frv., þó hún verði samþ. Eins og auðsætt er, þá liggur aðalsparnaðurinn í 2. gr.