16.04.1924
Efri deild: 51. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 721 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurður Eggerz:

Það stendur í nál., að fyrverandi stjórn hafi í sumum atriðum gengið fulllangt til sparnaðar, einkum þó að því er snertir hin lögboðnu gjöld. En það hefir altaf viljað brenna við hjá öllum stjórnum, að sumir liðir hafa verið settir of lágt. Annars skal jeg játa það, að jeg hefi ekki fylgst vel með gangi þessa máls í hv. Nd., þar sem jeg var lasinn, er það var rætt. Að því er einstaka liði snertir, þá skal jeg geta þess, að það eru tveir liðir, sem jeg gæti haft nokkra samvisku af. Er annar þeirra fjárveitingin til landhelgisgæslu, sem var of lág í fyrra og hefir verið það aftur í stjfrv. og er of lág nú. Hv. Nd. setti hana 70 þús. kr., en hv. fjvn. þessarar deildar hefir bætt 10 þús. kr. við og ætlast um leið til þess, að af allri upphæðinni sje varið 20 þús. kr. til að útbúa björgunarskipið Þór til landhelgisgæslu. Er enginn vafi á því, að upphæðin er ennþá alt of lág, ef litið er á reynslu liðinna ára. Vil jeg taka það skýrt fram, að jeg mun ekki átelja hæstv. stjórn fyrir það, þó hún fari fram úr þessari upphæð, því að það skiftir miklu máli, að landhelgisgæslunni sje vel fyrir komið. Þá vildi jeg minnast á annan lið, en það er skrifstofufje sýslumanna. Það er í stjfrv. ákveðið 42 þús. kr. Jeg álít þetta alt of lágt. En hvorug fjvn. hefir athugað þetta. Jeg hafði farið hærra í úthlutuninni, enda hafði jeg heimild til þess. Dómsmálaráðherra ákveður samkv. launalögunum upphæðina, og þó að jeg hafi farið lengra, þá verð jeg að játa, að sýslumönnum er gert rangt til, því að þeir eiga heimtingu á meira skrifstofufje eftir lögunum; enda eru þeir mjög óánægðir með þetta. Þingið er óánægt með það, hve há upphæðin er, en sýslumennirnir með hversu lág hún er. Í þágu rjettlætisins vil jeg brýna það fyrir hv. deild, að upphæðin er alt of lág. Sýnir það sig best í því, að einhver besti embættismaður þessa lands, sýslumaðurinn í Snæfellsnessýslu, hefir ár eftir ár sýnt með sanngjörnum reikningi, að honum hefir verið ætlaður skrifstofukostnaður, sem er 1000 kr. undir því, sem hann brúkar. Og þó er maður þessi mjög sparsamur bæði á sitt fje og annara. Jeg vil þakka háttv. nefnd fyrir það, að hún hækkaði hjeraðslæknirinn í Reykjavík um 500 kr. Hefði verið hneyksli að lækka þann lið, þar sem þessi maður gegnir heilu prófessorsembætti, auk þess sem hann er mjög lærður og því ómissandi maður. Mun það einsdæmi, að maður vinni svo mikið starf fyrir svo litla greiðslu, og væri það því sannarlega illa þakkað af Alþingi, ef það lækkaði þóknun hans. Hv. frsm. (JóhJóh) mintist nokkuð á 15. brtt. nefndarinnar, við 14. gr. Talaði hann um afskifti fyrv. stjórnar af því, að cand. Kristinn Ármannsson er kominn að mentaskólanum. Kvað frsm. hann hafa hafnað góðri stöðu í Danmörku eftir áskorun fyrv. forsrh. til þess að koma hingað að skólanum. Þetta er ekki rjett. Jeg óskaði ekki eftir því, að hann hafnaði stöðunni, en sagði honum, að það yrði hann að gera upp við sjálfan sig. Jeg kom ekki með neina ósk um það, að hann yrði hjer, en rektor skólans og fleiri mæltust til þess við stjórnina, að hann fengi þau laun, að hann gæti verið hjer heima, þar sem þetta væri afbragðsmaður í sínu fagi. Stjórnin trygði honum því aðeins lægstu adjunktalaun þetta eina ár. Þó að jeg komi með þessa leiðrjettingu, þá greiði jeg með ánægju atkvæði með hækkun liðsins, því að jeg veit, að mentaskólanum er mjög mikill fengur í þessum manni. Er hann sá eini af yngri mönnum hjer á landi, sem hefir gert latínu að aðalnámsgrein sinni. Ennfremur verð jeg að þakka hv. fjvn. það að hafa hækkað styrkinn til veraldarsögunnar. Jeg varð steinhissa, þegar jeg tók eftir því, að dóttir mín, sem er í mentaskólanum, var að lesa hinar og þessar danskar lærdómsbækur. Gleðst jeg yfir því, að hv. fjvn. hefir skilið þörfina á slíkri sögu á íslensku og veitt fje til hennar. Jeg er alls ekki að amast við dönskunni sjerstaklega, heldur yfirleitt við því, að vjer skulum ekki hafa bækurnar á voru eigin máli.

Jeg verð að segja, að mig furðar stórkostlega á meðferðinni á Jóhannesi L. L. Jóhannssyni hjá hv. Nd. Jeg get ekki valið vægari orð en það, að hún sje algerlega ósæmileg. Þessi aldraði fjölskyldumaður er dreginn úr embætti, þar sem hann gat lifað sæmilega, og settur til vísindastarfa. Þegar hann hefir starfað nokkurn tíma á að svifta hann launum. Fjvn. þessarar hv. deildar hefir hækkað upphæðina upp í 5 þús. kr. Álít jeg hana enn of lága, og mun því koma með brtt. um hækkun við 3. umr.

Hvað veðurathuganirnar snertir, verð jeg að líta svo á, að lækkun hv. Nd. sje gerð af djúpu skilningsleysi. Í hinum mentaða heimi eru veðurathuganir skoðaðar sem alger nauðsyn. Eru þær ekki síst nauðsynlegar þessari þjóð, þar sem annar aðalatvinnuvegur vor er sjávarútvegur. Þegar við lítum á það, hvað margir hraustir drengir hafa orðið að offra lífi sínu fyrir þann atvinnuveg, finst mjer mega vænta þess, að þingið skilji, að ekki megi að óþörfu auka á hættuna, en það er gert með því að draga úr þessum styrk. Í Noregi, Ameríku og víðar þar, sem veðurfræðin er komin á hátt stig, geta veðurfræðingar sagt fyrir um veður í ótrúlega mörgum tilfellum. Hækkun hv. fjvn. þessarar deildar er of lítil, þó hún hafi sýnt meiri skilningsvott á þessu máli en fjvn. hv. Nd. Þá hefi jeg ástæðu til að þakka hv. fjvn. fyrir að hækka laun vörumerkjaskrásetjara úr 800 kr. í 1200. Sannast að segja er meðferð hv. Nd. á þessum manni mjög óskemtileg. Þetta er aldraður maður; hann hefir unnið sem skrifari í stjórnarráðinu og rækt störf sín með stakri samviskusemi. Finst mjer ilt að launa langt og trúlega unnið starf hans eins og hv. Nd. vill gera.

Þá er einn nýr liður — styrkur til hjónanna í Hítardal, 1000 kr. Maður verður glaður á þessu þingi þegar maður sjer bregða fyrir víðsýni. Þau hjón eiga tíu drengi á ungum aldri. Er sýnilegt, hvað mikill skerfur það er, sem þau hafa lagt inn í þjóðarbúið, ef svo má að orði kveða. Sumir halda fram, að hjer sje skapað hættulegt fordæmi. En það er langt frá. Fyrst og fremst geri jeg ráð fyrir því, að fátæk heimili á landinu, þar sem eru tíu drengir á þessum aldri, sjeu hverfandi fá, og mundi ekki saka þó þau öll fengju samskonar styrk. (EP: Þetta eru drengir, en hvað þá um dætur?). Auðvitað alveg sama. Hv. fjvn. hefir sýnt góðan skilning á þessu máli. Það má geta þess í viðurkenningarskyni við heiðursfrúna á Staðarhrauni, að hún tók sjer ferð á hendur um hávetur hingað suður til að fá þingið til að hjálpa þessu heimili. Hún hefir ætíð reynst þessu heimili holl bjargvættur. Jeg tek það skýrt fram, að þingið hefir alls ekki skapað hættulegt fordæmi með þessu. Mun jeg með engri till. greiða atkv. glaðari en þessari.

Aðra till. vil jeg minnast á, sem jeg get þó ekki þakkað hv. fjvn. fyrir; þar kveður við alt annan tón. Jeg býst við, að Árni Th. Pjetursson hafi fengið loforð um 500 kr. laun þangað til hann fengi kennaraembætti. Jeg skoða það sem hreina brigðmælgi, ef þingið riftar þessu. Jeg vil geta þess, að hv. meiri hluti mentmn. gerði till. um, að hann fengi þennan styrk á fyrra ári.

Jeg á aðeins eina brtt. við fjárlagafrv., við 14. gr. Það er 600 kr. styrkur til Ingibjargar Brands. Hún hefir í 15 ár fengist við kenslu og notið styrks og kent 18–20 námsmeyjum á ári. Nokkru af styrknum hefir hún orðið að verja til hreingerningar o. fl. á húsnæði því, sem hún notar. Álít jeg mjög skakt að fella styrkinn niður. Jeg lít svo á, að leikfimi og líkamsæfingar geti átt afarmikinn þátt í að gera þjóðina styrka á svo mörgum sviðum. Mun það sannast, að í framtíðinni verður lögð miklu meiri áhersla á leikfimi en hingað til. Þessi kona hefir kent mörgum sveitastúlkum, sem aftur hafa kent út frá sjer þegar þær komu heim. Veit jeg, að ekki þarf að fara fleiri orðum um brtt.; geri ráð fyrir, að hún fái góðan byr. Jeg er sannfærður um, að þessi liður hefði ekki verið feldur í hv. Nd., ef þær skýringar hefðu komið fram um hann, sem jeg hefi nú veitt. Jeg þarf ekki fleira að segja um málið, aðeins vil jeg undirstrika það, hvað mikla tröllatrú jeg hefi á leikfimi og að alt sje gert til þess, sem hægt er, að halda henni uppi.