22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (2176)

96. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi ekki heyrt það tekið fram við umr., sem þó er töluvert atriði í þessu máli, að mikill munur er á broti innlends og erlends togara. Nú er farið fram á það í frv., að gera mun á refsingum fyrir þessi brot, en sá galli er á, að frv. gengur hjer í þveröfuga átt. Þegar íslenskt botnvörpuskip veiðir í landhelgi, er brotið eiginlega fólgið í því, að skipið notar önnur veiðarfæri en leyfð eru. Brot útlenda skipsins er hinsvegar tvöfalt, óleyfileg veiðarfæri og óleyfilegur veiðistaður. Þetta er munurinn samkvæmt lögum, og því kemur ekki til nokkurra mála, að þyngri refsing verði lögð á innlenda menn en erlenda fyrir þessi brot. Auk þessa gæti þetta haft aðrar alvarlegri afleiðingar. Auðvitað yrðu þeir íslensku skipstjórar, er þannig væru sviftir öllum rjettindum og möguleikum, að lifa áfram eins og aðrir afbrotamenn, sem ekki eru beinlínis teknir af lífi. Þeir myndu því að öllum líkindum leita til erlendra skipa og ganga í þjónustu þeirra. Jeg býst við því, að það þætti góður fengur erlendis að fá skipstjórana okkar sem leiðsögumenn og verkstjóra. En jeg get ekki betur sjeð en að þessi yrði afleiðingin af framgangi þessa frv., ef ákvæðum þess yrði nokkurntíma beitt.