14.03.1924
Neðri deild: 23. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (2268)

39. mál, kosningar til Alþingis

Árni Jónsson:

Hv. allshn. hefir ekki getað orðið sammála um frv., sem sjá má af því, að 3 nefndarmenn af 5 hafa skrifað undir nál. með fyrirvara. Þó hygg jeg, að þessi ágreiningur sje ekki svo mjög um frv. sjálft sem um brtt. nefndarinnar. Mjer skilst, að meirihluti nefndarinnar sje meðmæltur aðalbreytingum frv. á gildandi kosningalögum, og get jeg verið nefndinni þakklátur fyrir það.

Frv. þetta er fyrst og fremst fram borið til þess að bæta úr því misrjetti, sem íbúar strjálbygðra og ógreiðra sveitahjeraða verða fyrir á móts við þá menn, sem í kaupstöðum búa, er kemur til kosningarrjettar. Aðalbreytingarnar, sem fram koma í frv. okkar flm., skifting hreppa í kjördeildir og færsla kjördags, hníga báðar í þessa átt.

Eins og nú standa sakir, má svo að orði kveða um suma hreppa, þar sem örðugast er yfirferðar, að íbúar þeirra hafi ekki nema ½ atkvæði til móts við þá kjósendur sama kjördæmis, sem búa í kauptúnum. Jeg þekki t. d. bæi, sem naumast verður farið til og frá kjörstað á minna en 4 dögum, um það leyti árs, sem kosning fer nú fram. Á Norður- og Austurlandi er oft komin mikil ófærð um þetta leyti, svo að ekki verður komið við hestum, en þó að þeim yrði við komið, er bændum mjög illa við að þurfa að nota þá, þegar svo er áliðið hausts, er hestarnir eru flestir þreyttir og þvældir eftir langar kaupstaðarferðir, og þyrfti þá helst að taka þá á gjöf. Menn fara því flestir gangandi á kjörstað. Nú vita menn, að mikill þorri bænda er einyrkjar, og eiga þeir mjög erfitt með að sækja kjörstað, þar sem langt er til hans, og um konumar er auðvitað ekki að tala.

Með því að fjölga kjörstöðum, svo að ekki verði eins langt til að sækja, höfum við flm. hugsað okkur að bæta úr þessu, og þó engu síður með hinu, að færa kjörtímann til vorsins. Allir, sem ferðast hafa um þetta land, geta borið um muninn á því að vera á ferð að vorinu, þegar enginn er munur nætur og dags, vegir bestir og hestar í fullu fjöri, eða að haustinu, þegar oft verður ekki þverfótað fyrir ófærð.

Hv. allshn. hefir líka haft fullan skilning á þessu og gengið inn á þessar tillögur okkar flm. Hún hefir aðeins gert þá breytingu, að kjördagur sje fluttur í 11. viku sumars, í stað 10. viku, og í stað hreppsnefnda skuli það vera sýslunefndir, sem skifta hreppunum í kjördeildir, og höfum við að sjálfsögðu ekkert við það að athuga.

Þá hefir hv. nefnd einnig samræmt þessar breytingar öðrum ákvæðum kosningalaganna, að því er snertir tímann um gildi kjörskráa, og erum við henni þakklátir fyrir.

Ein er sú breyting í frv. okkar, sem háttv. nefnd hefir ekki getað fallist á, en það er 5. gr. frv., þar sem talað er um breytingu á kjörgögnunum. Eins og menn vita, hafa þótt töluverðar misfellur á notkun þessara kjörgagna, sem nú gilda. Og er þess skemst að minnast, að nú í þingbyrjun fengu menn sjer fluttan heim sanninn um það, að mönnum virðist ekki vera orðið tamt að nota þessi gögn. Mjer er sagt, að mikið þætti á því bera, að menn væru taugaóstyrkir við þá hátíðlegu athöfn að greiða atkvæði. Og það er ekki nema eðlilegt. Þarna situr fyrst kjörstjórnin, þögul og leyndardómsfull; síðan er mönnum vísað inn í skuggalegan klefa, og vill þá grípa menn einhver ótti við hið óþekta. En þó tekur út yfir, þegar inn í klefann kemur og fyrir mönnum verða þessi myrku og galdralegu kjörtól. Það er síst furða, þó að sumum kjósendum fatist þá listin.

Okkur flm. þótti rjett að reyna að ráða bót á þessu, og breyta lögunum aftur þannig, að nota mætti blýant í stað stimpils. Og til þess að gefa mönnum svigrúm til þess að setja dálítið verklegan kross, vildum við stækka reitinn framan við nafn frambjóðanda, þannig, að hringurinn yrði 1 cm. að þvermáli, í stað ½ cm. Þessi breyting er einnig í samræmi við landskjörið, þar sem menn mega nota blýant. En nú má búast við, verði færsla kjördagsins samþykt, að saman geti fallið landskjör og kjördæmakosning, og væri mönnum þá eflaust ótamt að nota til skiftis stimpilinn og blýantinn, og gæti þá svo farið, að stimplað væri þar, sem setja átti kross, en krossað þar, sem setja átti stimpil. Mjer finst hv. nefnd því hafa gert rangt í því að fella niður þessa grein úr frv. okkar, og vænti þess, að hv. deild samþykki hana eins og hún er í frv.

Þá er eitt nýmæli, sem meirihluti nefndarinnar leggur til að samþykt verði, að kjörseðill skuli talinn gildur í tvímenningskjördæmi, þótt aðeins sje merkt við nafn eins frambjóðandans. Þessa breytingu tel jeg mjög varhugaverða. Hv. 2. þm. Árn. (JörB) hefir minst rækilega á þessa tillögu, og hefi jeg þar litlu við að bæta. Úr því að tveim mönnum er ætlað að vera fulltrúar fyrir kjördæmið, sje jeg ekki, að hjá því verði komist að kjósa 2 menn, en ekki einn. Jeg hygg, að þá væri miklu betra að snúa sjer að því að skifta öllum tvímenningskjördæmunum og gera þau að einmenningskjördæmum.