09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í C-deild Alþingistíðinda. (2315)

94. mál, sveitarstjórnarlög

Björn Líndal:

Í hv. Ed. hafa breytingar á sveitarstjórnarlögunum verið á ferðinni, og mun öll allshn. þeirrar deildar hafa verið sammála um að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá. Eins finst mjer að ætti að vera hjer. Það er í skjótu máli sagt, að jeg get alls ekki fallist á frv. á þskj. 142, og vænti þess, að það fái ekki fram að ganga. Mín skoðun er sú, að gengið hafi verið alt of langt í því að leggja útsvar á aðkomumenn, eins og það, að leggja skatt á þá menn, sem fara t. d. upp í sveit til sumardvalar, ef þeir annaðhvort veiða eitthvað af laxi eða fá sjer slægnablett, svo sem til hressingar eða skemtunar. Þetta hefir líka orðið til þess, að sumir hafa borgað útsvar, en aðrir hafa sloppið við það, eða útsvarið ekki innheimst hjá öðrum en þeim, sem greiddu það góðfúslega. Jeg vil nú ekki fara út í smáatriði, en mjer er það ljóst, að stefna frv. er þveröfug við það, sem jeg kysi. Það er nú margbúið að breyta þessum lögum, og þó hægt sje í bili að komast að einhverri niðurstöðu um efni eins og þetta, þá hefir það jafnan sýnt sig, að margt hefir þar verið vanhugsað og meira ráðið hagsmunir sjerstakra sveitarfjelaga en þjóðarinnar í heild sinni. Vandaðar og vel athugaðar breytingar á þessum lögum er ríkisstjórnin færust um að undirbúa. Því geri jeg það að tillögu minni, að málinu í heild sinni verði vísað til stjórnarinnar. Brtt. hv. þm. Borgf. (PO) hefi jeg raunar ekkert á móti, og get því vel unt henni þess í sjálfu sjer, að hún nái fram að ganga.