11.04.1924
Neðri deild: 48. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í C-deild Alþingistíðinda. (2351)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Tryggvi Þórhallsson:

Það gladdi mig að heyra hæstv. forsrh. (JM) vitna í Sturlungu í lok tölu sinnar, en margt annað er þó ekki líkt um okkur. — Annars var þar ekkert svaravert, nema eitt einasta atriði, sem jeg skrifaði orðrjett upp eftir honum. Hann sagði: — Svona hefir það altaf verið, bæði fyr og síðar. — Þetta er höfuðatriðið, sem ber á milli. Jeg og margir fleiri hjer í þessari hv. deild viljum einmitt ekki, að það sje áfram eins og það er og hefir verið. Það, sem mjer og hv. flm. (ÞórJ), er um að gera, eru ekki launakjörin í sjálfu sjer, heldur hitt, að ekki sjeu ofmargir menn í þjónustu ríkisins, heldur hæfilega margir menn, sem fá dágóð laun.

Þá var hv. þm. V.-Sk. (JK) að biðja menn að skifta sjer sem minst af því, sem skrifað væri í blöð, og vildi yfirleitt, að sem minst væri tekið eftir slíkum skrifum. Hv. ritstjórinn getur áreiðanlega verið rólegur. Honum mun verða að ósk sinni, hvað hann sjálfan snertir.