14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í C-deild Alþingistíðinda. (2364)

54. mál, vinnutími í skrifstofum ríkisins

Magnús Torfason:

Það var út af ummælum háttv. þm. Str. (TrÞ), sem jeg stóð upp. Í þessari till. felst einmitt traust til stjórnarinnar. Í till. stendur, að þetta skuli falið stjórninni, og er traust í því fólgið, að stjórninni er trúað til að gera þetta. En það eru margir hv. þm. svo gerðir, að þeir mega ekki sjá orðið „traust“ í dagskrám, sem afgreiddar eru til stjórnarinnar, og var því rjett af mjer að fella þessi orð burtu, til þess að þeir hv. þm. gætu verið með þessari dagskrá, þó á móti sjeu stjórninni, og er því þessi dagskrá mín fullkomlega formlega rjett, og ættu allir að geta fallist á hana í þessu formi. Jeg gat alls ekki greitt þeirri dagskrá atkv., sem hjer kom fram við 2. umr., vegna þess, hve hún var óákveðin í orðalagi. Þetta, að „hafa aðgæslu með“ o. s. frv., er svo óákveðið og svo kauðalegt orðalag, að jeg get varla tekið mjer það í munn. Hjer í þessari dagskrá er alt öðruvísi kveðið að orði, stjórninni falið „að ganga ríkt eftir“ o. s. frv., og er það miklu ákveðnara, og er því mikill efnismunur á dagskránum, og jeg veit, að háttv. flm. (ÞórJ), mun miklu betur geta felt sig við þessa till. en hina, sem allshn. kom fram með við 2. umr., er hann veit, að í stjórninni sitja að minsta kosti tveir sparnaðarmenn, þar sem eru þeir hæstv. fjrh. (JÞ) og hæstv. atvrh. (MG), og mun hann treysta þeim til að gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að það mál, sem hjer hefir verið hreyft, hafi sín tilætluðu áhrif.