08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í C-deild Alþingistíðinda. (2431)

40. mál, útflutningur hrossa

Hákon Kristófersson:

Eins og háttv. frsm. (PÞ) tók fram, er meirihl. landbn. þessu máli fylgjandi. Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, og er það ekki svo að skilja, að jeg sje mótfallinn því að samþykkja frv. Það er alveg sjálfsagt, og frekar formsatriði, þar sem lögin hafa náð tilgangi sínum og eru nú fallin úr gildi af sjálfu sjer. En jeg hefi áður lýst afstöðu minni til þessa máls hjer í hv. deild, og er þess ekki að dyljast, að jeg hefi ekki skift skoðun síðan. Jeg tel það mjög óheppilegt að leyfa útflutning hrossa um hávetur. Ekki einungis vegna þess, að hrossum líði ver í skipum á þeim tíma, sem mjög er sennilegt, heldur álít jeg einnig, að hrossamarkaðir að vetrarlagi sjeu því nær óframkvæmanlegir, nema þar sem svo hagar til, að kaupa má hestana við útflutningshöfnina. Jeg tel það varla gerlegt að reka hross bygða á milli um hávetur, þegar allra veðra er von; þau fá ef til vill hríðar og bylji og verða svo að standa úti næturlangt bæði vot og þreytt, því að fá munu þau heimili, er geti hýst heilan hóp af hrossum.

Jeg skoða það sem undantekningu, ef ekki má framkvæma nauðsynlega hrossasölu á sumrin, eða mánuðina júlí til október. Þó skal jeg viðurkenna, að hross líta oft betur út í nóvembermánuði en í maí eða júní, enda líta þau stundum einna lakast út um það leyti.

Mjer er kunnugt um, að skipstjórar, sem sigla hjer við land, hafa vitað um þetta, og virðast þeir telja mjög óheppilegt, að hross sjéu flutt hjeðan að vetrarlagi.

Þessi orð mín mega ekki á neinn hátt skiljast sem árás á hæstv. stjórn fyrir að hafa leyft þessa undanþágu, en jeg vildi aðeins taka fram, að jeg er því mjög mótfallinn, ef sá siður yrði upp tekinn að leyfa útflutning hrossa um hávetur. Á jeg þar ekki við útflutning fárra hrossa, sem unt er að láta fara vel um, heldur heildarútflutning.