26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í C-deild Alþingistíðinda. (2462)

34. mál, sendiherra í Kaupmannahöfn

Forsætisráðherra (SE):

Það er ekki í fyrsta skifti, að þetta mál kemur til umr. á Alþingi; en furðu sætir, að þinginu skuli vaxa það í augum, þó eytt væri 42 þúsund krónum eða svo til utanríkismála þjóðarinnar.

Háttv. alþingismenn verða að læra að skilja, að utanríkismálin eru þau allra stærstu, vandasömustu og alvarlegustu mál þjóðarinnar. Svo er það hjá öllum þjóðum Alþingi verður og að læra að skilja, að þó að, samkvæmt sambandslögunum, Danir fari með utanríkismál vor í umboði voru, eru þau framkvæmd þannig, að í raun og veru stjórnar íslenska stjórnin öllum utanríkismálunum algerlega sjálf. Það er ekki sett ein einasta smágrein, ekki komma eða punktur neinstaðar, án þess að stjórn Íslands segi til um, hvar það á að vera, eða eigi þar hlut um. Hefir hið háa Alþingi athugað, hvernig þessum málum er varið með öðrum þjóðum? Erlendis er utanríkisráðherrann jafnan sá ráðherra, sem valinn er af allra besta endanum. Hjer er svo lítið skeytt um þessi mál, að hjer í ráðuneytinu er enginn maður með sjerþekkingu á þeim.

Í utanríkisráðuneytinu eigum vjer ágætan mann þar sem Jón Krabbe er, en hvernig fer, ef hans misti við? Þá eigum við í augnablikinu engan mann, sem fær væri að taka við starfinu.

Auðvitað bera undanfarandi stjórnir, og jeg auðvitað einnig, ábyrgð á því, að ekkert hefir verið gert til þess að fá unga menn til þess að afla sjer sjerþekkingar í þessum málum, en á því væri í raun og veru hin mesta nauðsyn. Það ætti að vera nóg til þess að sýna, hvað mál þau, sem hjer er um að ræða, hafi mikla þýðingu fyrir þjóðina, að benda á alla þá samninga, sem búið er að gera og verið er að gera og nauðsyn er á að gera í framtíðinni um verslunarmál við aðrar þjóðir.

Jeg held við ættum allir að geta orðið sammála um, að okkur veitir ekki af að hafa þennan eina sendiherra, sem við eigum í Kaupmannahöfn. Þó hann sjer þar, þá hefir honum verið beitt í ýmsar ferðir, bæði til Noregs, Svíþjóðar og einnig til Englands. Hefir hann allan þann tíma, sem hann er búinn að gegna þessu þýðingarmikla starfi sinu, ávalt haft ærið nóg að gera.

Háttv. flm. (TrÞ) sagði í ræðu sinni, að það skifti minstu, hvað þessi maður hjeti. Mun hann þar hafa átt við það, að ef skift væri um nafn, þá þyrfti hann ekki að vera svo hálaunaður. Þetta er algerlega misskilningur. Í fyrsta lagi af því, að ekki er hægt að fá úrvalsmenn í stöður, sem illa eru launaðar. En þetta er þó ekki aðalatriðið. Höfuðatriðið er það, að fyrir manni í sendiherrastöðu eru allar dyr opnar erlendis. Það skiftir afarmiklu máli, að sendiherra vor á samkv. stöðu sinni beinan aðgang að þeim mönnum annara þjóða, sem mestu ráða um mál þeirra. En maður í lægri stöðu verður að halda sjer til skrifstofumannanna og þeirra, sem lægra eru settir, og er það auðsætt, hvaða þýðing þetta hefir fyrir úrslit málanna.

Hv. flm. (TrÞ) játar sjálfur, að maðurinn, sem starfinu gegnir, sje mjög hæfur maður og hafi gert mikið gagn. Það gagn hefir hann ekki einasta gert á þessum ferðum, sem jeg gat um, heldur og líka hjá sambandsþjóð okkar. Hefir nærvera hans þar að sjálfsögðu greitt úr ýmsu, sem valdið hefði getað misskilningi. Ein ástæðan fyrir því að halda sendiherraembættinu er sú, að í gegnum það getum vjer veitt mönnum undirbúning til þess, síðar meir, að taka þátt í meðferð þessara mála.