01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í C-deild Alþingistíðinda. (2579)

42. mál, einkasala á áfengi

Bjarni Jónsson:

Jeg heyrði það á ræðu hv. flm. (SvÓ), að ást hans á ríkissjóði og viðleitni hans til þess að auka tekjur ríkissjóðs náði ekki lengra en að bindindinu. Þó að það sje í lögum, að vín megi flytja inn í landið, má ríkissjóður ekki hafa tekjur af því. Hann vill vera barnfóstra landsmanna og ætlar sjer að sjá um, að þeir drekki ekki of mikið. Önnur fjármálaregla hans er sú, að spyrja aldrei, hvort rjett sje og skynsamlegt eða ríkissjóði í hag, — nei, í þessari tíð, er það ekki hagur ríkissjóðs — ekki tekjuauki ríkissjóðs, sem hann hugsar um, nei, heldur er það hegðun fjöldans. Þar er hugur hans allur. Eftir þessu hygg jeg, að fleiri hafi tekið en jeg. Þegar talað er um að stofna til einhvers tekjuauka ríkissjóði til handa, segir hann, að hagur fjöldans stefni ekki að því. Þetta sje fjöldanum í óhag. Þetta er þá allur sparnaðurinn! Þetta sparnaðarhjal er því aðeins til þess gert að laða að sjálfum sjer hug fjöldans, kjósendanna, til þess að mæla með sjálfum sjer við næstu kosningar. (SvÓ: Er það ekki fjöldinn, sem ræður? JÞ: Jú við kosningar!)