28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í C-deild Alþingistíðinda. (2596)

42. mál, einkasala á áfengi

Frsm. 1. hl. (Ágúst Flygenring):

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að þess hefði hvergi verið getið, að tóbakseinkasalan, sem enn hjeldi áfram við hliðina á öðrum ríkisverslunum, gæti sameinast vínverslun, sem vitanlega væri þó hugsanlegur sparnaður, meðan hún ekki væri lögð niður.

Það er satt, þess var ekki getið í nál. 1. hl., en jeg tók þetta fram í framsöguræðu minni. Það er einnig af þessum ástæðum, vegna hagsmuna ríkissjóðs, að við viljum ekki, að þessi samsteypa eigi sjer stað. Jeg álít vínverslunina framtíðarverslun, en tóbakseinkasöluna ekki. Væri það því að tjalda til einnar nætur að steypa vínversluninni saman við tóbakseinkasöluna, sem vonandi á ekki eftir að standa nema eitt ár eða svo; enda væri það hið mesta óráð. Hitt tel jeg frágangssök, og býst við að flestir telji, að blanda saman vínversluninni og steinolíusölunni eins og á stendur, sem vitanlega verður að vera í höndum þess sama manns, sem nú hefir hana á höndum, meðan samningarnir standa, sem um þetta hafa verið gerðir. En þess er heldur ekki svo langt að bíða, vonandi, að þessi olía verði gefinn frjáls. — Þá er aðeins tóbaksatriðið, sem alt ruglið er um.

Það eina, sem gera þarf, er að ráðstafa forstöðumensku vínverslunarinnar fyrir næstu áramót, þegar samningar núv. forstjóra er út hlaupinn. Það verður að vera, að voru áliti, sjerstaklega vel valinn maður, sem vit hefir á þeim hlutum. Það þýðir lítið að setja þessi störf í hendur skóara eða skraddara, eða jafnvel þó það væru svokallaðir „lærðir menn.“ Þó að lítið hafi verið gert úr þeirri þekkingu, sem til þessa útheimtist, er það nú samt svo, að þetta útheimtir allmikla verslunarþekkingu og fagþekkingu, þótt ekki þurfi sjerstakan skólalærdóm til þessa. Vitanlega er æskilegt, að núverandi forstjóri vínverslunarinnar haldi áfram, og að stjórn vorri takist að semja við hann á ný. Þessar verslanir eiga að vera reknar eins og einstakra manna fyrirtæki, sem allra best eru rekin.

Um sjerstakan lyfjafræðing sje jeg ekki ástæðu til að tala frekar. Viðvíkjandi því atriði er auðvelt að gera ráðstafanir seinna, ef með þarf og breyting verður. En það, sem jeg legg aðaláhershma á, er það, að ekkert af þessu er hægt að binda saman, sem ófrávíkjanlega reglu. Hefir það verið tekið fram áður. Hjer er fyrst og fremst um það að hugsa, hvað hagkvæmast sje, þegar að því kemur, að breyta þarf. Ætti öllum að vera það nokkurnveginn ljóst, að lítill sparnaður er að því að setja tvær verslanir saman, þegar máske verður ekki nema um svo sem eitt ár að ræða, máske ekki svo lengi. Í þessu máli virðast menn missa sjónar á kringumstæðunum.