19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í C-deild Alþingistíðinda. (2646)

76. mál, bann gegn áfengisauglýsingum

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vona, að hv. þm. V.-Sk. (JÞ) verði bráðum kunnugri blaðamenskunni en halda má að hann sje nú, eftir orðum hans að dæma. Það er nefnilega svo, að þó ríkið reki áfengissöluna, þá er það ekki ríkið, heldur firmun, sem birta auglýsingarnar, enda eru það þau, sem sjá sjer hag í því að vekja eftirtekt á vörum sínum. Þá skal jeg gefa þær upplýsingar, að þetta frv. er samið af Stórstúku Íslands og sniðið eftir löggjöf Bandaríkjanna. Einnig myndi jeg geta látið allshn. hafa útdrætti úr löggjöf Svía og Finna um þetta efni, ef hún æskir þess.