08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í C-deild Alþingistíðinda. (2671)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Fjármálaráðherra (JÞ):

Nefnd sú, sem um þetta mál hefir fjallað, fjárhagsnefndin, hefir klofnað í þrjá hluta, og eru jafnmargir menn í báðum stærri nefndarhlutunum, þ. e. 3, en einn varð í nefndinni frv. mótfallinn að öllu leyti. Það hefir fallið í minn hlut að vera frsm. þessa hluta fjhn., sem í nál. 185 er kallaður 1. hl. fjhn., og þarf jeg ekki miklu við að bæta það, er í nál. stendur. Dagpeningar alþingismanna hafa verið, alt til ársins 1912, 6 kr. á dag, en þá voru þeir hækkaðir upp í 8 kr. fyrir þm. búsetta í Rvík, en 10 kr. á dag fyrir utanbæjarþingmenn. Árið 1919 voru dagpeningar alþingismanna hækkaðir upp í 12 kr. á dag, fyrir alla þm. jafnt, en þá var og jafnframt ákveðið, að greiða skyldi á þá dýrtíðaruppbót eftir sömu reglum og dýrtíðaruppbót er greidd á laun opinberra starfsmanna ríkisins, og við þetta stendur enn. Eins og getið er um í nál. á þskj. 185, þótti þessum hluta nefndarinnar rjett að fallast á þá stefnu, sem frv. ber vott um, að því leyti sem það miðar í sparnaðaráttina; er þar nokkur lækkun á útgjöldum ríkissjóðs, sem stafar af niðurfærslu þingafararkaupsins. Frv. þetta vill ákveða dagpeninga þm. 12 kr. á dag, án dýrtíðaruppbótar, en gerir ráð fyrir að fella úr gildi ákvæðin um dýrtíðaruppbót. Þessum hluta nefndarinnar, sem jeg tilheyri, þótti varhugavert að fastákveða kaup þingmanna, þegar alt verðlag er jafnbreytilegt og nú er. Við álítum, að þetta gæti orðið til þess, að ef dýrtíðin minkaði eitthvað eða hyrfi alveg, gæti svo farið, að þetta fastákveðna kaup þm. yrði óeðlilega hátt. Þessum hluta nefndarinnar þótti því rjettara að hverfa aftur að gamla grundvellinum frá 1912, og lækka kaupið niður í 8 og 10 kr. á dag; síðari upphæðin á við þm, sem ekki eru búsettir í Rvík. Nú hefir úr annari átt, frá háttv. þm. Mýra. (PÞ), komið fram brtt. við frv., þess efnis, að gera þann mun á þm., að utanbæjarþingmenn fái 15 kr. á dag. Eins og dýrtíðaruppbótinni er nú varið, mundu dagpeningar þm., samkv. till. þessa hluta nefndarinnar á þskj. 185, verða sem næst því, sem frv. fer fram á, að því þó viðbættu, að brtt. hv. þm. Mýra. (PÞ) yrði samþ. Dagpeningarnir yrðu þá, að viðbættri dýrtíðaruppbót, liðlega 12 kr. fyrir þm. búsetta í Rvík, en rúmar 15 kr. fyrir utanbæjarþingmenn.

Það er auðvitað algert álitamál, hvað menn vilja láta ákveða í þessu efni, og jeg ætla ekki að halda neina sjerstaka ræðu, hvorki með þessari nje annari upphæð, því jeg tel það mundi verða þýðingarlaust. Jeg býst við, að hv. þdm. geti gert þetta upp við sjálfa sig, alveg án nokkurrar leiðbeiningar frá öðrum, hvaða ákvæði þeir helst vilja aðhyllast um dagpeninga sjálfra sín.

Annað aðalatriði þessa frv. var hámark ferðakostnaðar alþingismanna úr hverju hjeraði. Nefndin athugaði þetta, en komst að þeirri niðurstöðu, að vegna hins óstöðuga verðlags á öllum hlutum sá hún sjer ekki fært að halda inn á þessa braut. Það verður naumast sagt, að skipaferðir og fargjöld með skipum kringum landið sje svo fastákveðið, að sanngjarnt sje að miða við það ferðakostnað þm. úr fjarlægum landshlutum. Þetta þykist jeg vita, að sje öllum hv. þm. svo ljóst, að ekki þurfi að fara mörgum orðum um það; t. d. nemur það talsverðu um ferðakostnað úr Suður-Múlasýslu, hvort heldur farið er suður eða norður um landið. Sama gegnir um ferðakostnað þm., sem verða að fara landveg. Það verður ókleift að gera skynsamlegar eða sanngjarnar áætlanir um þennan hlut. Ef sanngirni fengi að ráða í öllum tilfellum, yrði það líklega fremur til þess að hækka en lækka ferðakostnaðarreikninga, en það mun þó ekki vera tilgangurinn með þessu frv. Nefndin sá því ekki annan kost vænni en að láta það haldast, sem nú er, og samkv. því er brtt. á þskj. 185 borin fram.