29.03.1924
Efri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (2878)

110. mál, sparnaður við starfrækslu ríkisrekstrarins

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Fyrir 5 vikum bárum við hv. 5. landsk. (JJ) fram tillögu til þál. á þskj. 77, sem fór fram á, að skipuð yrði 5 manna nefnd, sem ætlað var að rannsaka nú þegar á þessu þingi og koma með till um, hvort ekki mætti spara á starfsmannahaldi ríkisins, og þá sjerstaklega hjer í Reykjavík, og jafnframt átti hún að athuga, hvort ekki væri tiltækilegt að skipa eina eða fleiri þingnefndir, er störfuðu kauplaust milli þinga og undirbyggju tillögur um þetta mál alt fyrir næsta þing. Tillögu þessari var vísað til fjvn., og hefir hún haft hana til meðferðar og komið nú fram með þál. á þskj. 231. þessi till. nefndarinnar er svipuð síðari hluta till. okkar, því að hún fer fram á að fela stjórninni að taka til rækilegrar yfirvegunar, hvort ekki megi spara útgjöld ríkisins við starfrækslu í hinum ýmsu greinum ríkisrekstrarins, og í sambandi við það er talið æskilegt, að stjórnin leiti sjer aðstoðar einnar eða fleiri nefnda í þessu. Vill fjvn., að slíkar nefndir starfi launalaust, því að hún vill ekki, eins og nú er ástatt með fjárhag ríkissjóðs, eyða fje, svo nokkru nemi, til þessa starfs. Sumir nefndarmenn litu svo á, að stjórnin gæti leitað aðeins til yfirmannanna í hverri stjett og fengið upplýsingar hjá þeim. En aftur fanst öðrum nefndarmönnum það ekki nægilegt, en vildu láta stjórnina leita álits annara manna, sem skyn bæru á slíka hluti, þó að þeir væru ekki í embættum; bjóst við, að þetta mikla vandamál yrði betur rannsakað á þann hátt.

Eins og að líkindum lætur hefir till. þessi verið athuguð vel af nefndinni, og legg jeg því til, fyrir hennar hönd, að hún verði samþykt.