02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2998)

143. mál, Landspítalamálið

Flm. (Ingibjörg H. Bjarnason):

Jeg vona, að enginn hafi skilið orð mín svo, að jeg ætlaðist til þess að fá loforð um fjárveitingu þegar á þessu ári. það er svo langt síðan jeg byrjaði á því að slá til hljóðs fyrir þessu máli, og mjer er það ljóst, að ef ekki verður byrjað bráðlega á þeim undirbúningi, sem felst í 1. og 3. lið till., þá er ómögulegt að koma málinu í framkvæmd í náinni framtíð. Jeg veit vel, að hagur ríkissjóðs er þröngur og horfurnar fram undan ekki sem glæsilegastar, en jeg hygg þó, að hann sje varla svo þröngur, að ríkinu sje ómögulegt að leggja um 100 þús. kr. á ári í nokkur ár til jafnmikils nauðsynja- og menningarfyrirtækis og þetta er. Jeg hygg, að það muni að minsta kosti verða varið mörgum 100 þús. kr. til þess, sem síður skyldi.

Jeg veit til þess, að bæjarstjórnin hefir viljað athuga, hversu mikla hitaorku megi fá úr Laugunum, og nota vatnið til þess að hita upp barnaskóla þann, sem ráðgert er að bærinn reisi, þegar fjárhagurinn leyfir; og ef afgangur yrði af því vatnsafli, þá mun bæjarstjórnin gjarnan láta landsspítalann fá það. En mjer finst jafnvel sjálfsagt, að landsspítalinn gangi fyrir barnaskólanum, og bærinn er svo háður ríkissjóði, að jeg hygg, að það mætti vel komast að samningum um það við bæjarstjórnina.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vona, að hv. deild samþykki till. þessa óbreytta, og þótt ekki væri samþyktur nema 1. og 2. liður, þá er það spor í áttina.