30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

1. mál, fjárlög 1925

Bernharð Stefánsson:

Jeg hefði ekki talað nú að þessu sinni, ef jeg hefði ekki þurft að leiðrjetta misskilning, sem að nokkru leyti kann að vera mjer sjálfum að kenna. En úr því að jeg er nú staðinn upp, þá vil jeg um leið minnast á 2 brtt., sem jeg hefi komið fram með. Að því er snertir fyrri brtt., þá vil jeg minna á það, að hv. frsm. fjvn. hefir haldið því fram, að úr því að ekki sje hægt að veita öllum stúdentum, sem nám stunda erlendis, þann styrk, sem um munaði, þá sje betra að veita hann færri, og þá þeim, sem eldri væru við námið ytra. Þetta getur verið alveg rjett, þegar einungis er litið á málið frá hagsmunasjónarmiði ríkisins. En á hitt verður líka að líta, þann órjett, sem nýsigldum stúdentum væri ger með þessu, sem farið hafa utan með sama sem loforð fyrir 4 ára styrk. Það væri hin mesta óorðheldni við þá, að svifta þá með öllu styrknum. Því hefir verið haldið fram, að takmarka þurfi tölu þessara lærðu manna. En það á bara ekki að takmarka hana á þennan hátt, að bregða alt í einu fæti fyrir þá menn, sem þegar eru komnir út á þá þraut, heldur á að takmarka hitt, hve mörgum sje hleypt út á hana. — Þannig var það t. d. um till. um að takmarka tölu námsmanna í mentaskólanum, sem jeg greiddi atkvæði með. Það datt víst engum í hug þá að gera neinar ráðstafanir til að reka þá, sem þegar voru komnir í skólann, heldur til að hindra of mikið aðstreymi að skólanum af nýjum mönnum.

Þá kem jeg að síðari brtt., sem er um ábyrgð fyrir Siglufjarðarkaupstað til að byggja rafstöð. Jeg heyrði því miður ekki, hvað hv. frsm. sagði um þetta atriði, en jeg kom inn í því, að hann var að minnast á það, að hagur þessa bæjar væri ekki góður, og því ekki glæsilegt að ganga í þessa ábyrgð. Benti hann meðal annars á, að skuldlausar eignir bæjarins væru ekki nema fyrir 1/3 af þeirri upphæð, sem farið væri hjer fram á í lægsta lagi. Jeg veit nú ekki, hvort það hefir verið mismæli hjá mjer eða að hv. þm. hafi misheyrst. Hafi mjer orðið mismæli, þá skal jeg nú leiðrjetta það og upplýsa, að skuldlausar eignir Siglufjarðar eru talsvert hærri en þessi upphæð, eða samtals 368102 kr. Þegar svo hjer við bætist, að einhver talsverð eign verður þó í þessu fyrirtæki, þá er það auðsætt, að hættulaust er með öllu að ganga í þessa ábyrgð. Bærinn á skuldlausar eignir fyrir meira en þessari upphæð, þótt fyrirtækið sje ekki tekið með, og ætti þetta því að vera fullkomlega örugt. Auk þess fer till. mín ekki fram á að skuldbinda ríkissjóðinn til þessa, heldur að heimila það, ef ríkisstjórnin telur það óhætt. Býst jeg við, að meiri hluti þings muni telja sjer óhætt að treysta á stjórnina í þessu efni.

Verði Siglufirði neitað um þetta, þá verð jeg að segja, að þar væri hann beittur hinum mesta mjsrjetti, því ýmsir aðrir kaupstaðir landsins hafa fengið slíkar ábyrgðir, þótt hærri væru og ekki tryggari. Skil jeg ekki í því, ef þeir, sem áður hafa setið hjer á þingi og greitt atkvæði með slíkum ábyrgðum, færu nú að leggjast á móti þessari. Í því fjárlagafrv., sem hjer liggur fyrir, er meira að segja ábyrgð handa Húsavíkurhreppi, og hefir hún verið samþykt hjer í deildinni. Veit jeg þó ekki, hvort hv. fjvn. hefir kynt sjer svo nákvæmlega, hvort sú ábyrgð muni vera öllu tryggari. Þar er að vísu um lægri upphæð að ræða, en þar er líka talsvert minna fjármagn og færra fólk. Jeg vona nú, að hv. nefnd sjái sig um hönd og greiði atkvæði með þessari brtt.