28.03.1924
Efri deild: 31. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (3109)

106. mál, Landsbókasafnið

Sigurður Eggerz:

Jeg minnist ekki að hafa sjeð skjal það áður, er hv. 5. landsk. (JJ) las nú upp. Jeg hefi skýrt frá því áður hjer, að háskólinn vildi ekki setja menn í landsbókasafnsnefndina. Sú neitun háskólans var lögum gagnstæð, enda hefir háskólinn ekkert atkvæði um, hver skuli vera landsbókavörður. Annars mun mjer óhætt að skýra frá því hjer, að landsbókavörður hefir nú um langan tíma ætlað að segja af sjer. Og hefir hann verið mjög ákveðinn í því, aðeins ekki haft ráð á að gera það án aukinna eftirlauna. Lítur hann svo á, að rjett sje, að yngri kraftar komi að safninu.

Jeg get tekið fram, að í minni stjórnartíð kom engin kæra fram gegn þessum embættismanni. Var því engin ástæða fyrir mig til rannsóknar á landsbókasafninu, einkum og sjer í lagi þar sem jeg auk þess vissi, að landsbókavörður sjálfur taldi rjett, að hann drægi sig til baka, aldurs vegna.

Annars er jeg ekkert á móti því, að mál þetta gangi til mentamálanefndar. En þar sem mjer skildist, að í orðum hv. 5. landsk. (JJ) lægi ásökun til fyrverandi stjórnar fyrir afskiftaleysi af málinu, vil jeg skjóta því fram, hvort ekki sje rjett, að jeg víki úr nefndinni, en aftur sje bætt öðrum manni í hana í minn stað.