05.05.1924
Sameinað þing: 5. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í D-deild Alþingistíðinda. (3241)

137. mál, íslenskt happdrætti

Sigurjón Jónsson:

Um það leyti, sem þessi till. til þál. var á leiðinni, höfðum við, nokkrir þm., á prjónunum till. um stofnun Íslensks happdrættis. Vorum við ákveðnir í því að gera eitthvað í þessu máli, áður en þingi yrði slitið. Varð það svo úr, að við bjuggum til frv. um þetta efni og lögðum það fyrir hv. Nd. Hv. fjhn. fjekk svo frv. til meðferðar, en eftir því sem mjer er kunnugt, þá eru ekki mikil líkindi til þess, að það komi aftur fyrir hv. deild, enda hefir hæstv. stjórn haft góð orð um að taka málið alt til yfirvegunar fyrir næsta þing, og er henni þá innan handar að hafa frv. okkar til hliðsjónar, ef henni býður svo við að horfa.

Í okkar frv. voru ákvæði um það, hvernig hagnaðinum af happdrættinu skyldi varið. En auðvitað kemur það til kasta þingsins að kveða nánar á um það síðar, og er mitt álit, að ekki sje heppilegt að ræða það atriði hjer að þessu sinni. Nógur tími til þess, þegar málið kemur aftur fyrir næsta þing, eins og jeg geri ráð fyrir að verði.

Jeg vil því leyfa mjer að leggja það til, að till. þessari verði vísað til ríkisstjórnarinnar, án þess þó, að efni hennar sje samþykt, og athugist hún þá ásamt frv. hv. Nd. Er ekki raunar svo að skilja, að jeg vilji á nokkurn hátt setja mig á móti því, sem í till. stendur, en jeg álít aðeins ekki tímabært að fara nú að ráðstafa ágóðanum af þessu fyrirtæki. Verður það auðvitað gert á sínum tíma.