03.05.1924
Neðri deild: 62. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í D-deild Alþingistíðinda. (3368)

129. mál, klæðaverksmiðja

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Brtt. á þskj. 451 er í fullu samræmi við niðurstöðu nefndarinnar, sem skipuð var 1922 til að athuga þetta mál. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu, að ekki ætti að setja upp smáverksmiðjur hjer og þar á landinu, heldur eina stóra og fullkomna verksmiðju. Leit nefndin svo á, að slík verksmiðja mundi styðja betur heimilisiðnaðinn en þótt þær væru fleiri og smærri; hún hefði það t. d. alt af fram yfir hinar, að hún gæti framleitt ódýrari vöru. Þetta er líka algerlega rjett á litið.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) kvað það eðlilegt, að sú nefnd hefði komist að þeirri niðurstöðu, að verksmiðjan ætti að vera ein og standa í Reykjavík, þar sem allir nefndarmennirnir hefðu verið Reykvíkingar. Hann sagði einnig, að Hallgrímur heitinn Kristinsson hefði fallið frá nefndarstörfum áður en nefndin hafi verið komin að þeirri niðurstöðu. Þetta er misskilningur hjá hv. þm. (SvÓ). Nefndin hafði þá þegar komist að þessari niðurstöðu, og áleit þessi mæti maður, eins og hinir, að þessi leið væri best.

Hv. þm. (SvÓ) kvað nefndina hafa litið á málið gegnum reykvísk gleraugu, af því að nefndarmenn voru Reykvíkingar. Það er satt, að þeir voru búsettir hjer, en hitt þykist jeg fullviss um, að þeir hafi litið hlutlausum rannsóknaraugum á málið og ekki fremur borið Reykjavík fyrir brjósti en aðra hluta landsins. Svo er það t. d. um mig, að eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) veit, þá er jeg enginn sjerstakur Reykjavíkurvinur, en þó er jeg á þessari sömu skoðun og nefndin.

Þá talaði hv. þm. (SvÓ) um, að svo margt væri nú fyrirliggjandi af kostnaðarsömum framkvæmdum, að litlar líkur væru til þess, að ríkissjóðurinn hefði efni á að koma þessu í framkvæmd fyrst um sinn.

Eftir gögnum, sem fram hafa komið, treysta menn í einum tveimur sýslum, Múlasýslum, sjer til þess að leggja fram eins mikið fje og hjer er gert ráð fyrir að safnað verði í landinu öllu. Þeir hafa beðið um ríkisábyrgð fyrir 200 þús. kr.; hinu ætla þeir að safna sjálfir, alt að þá miljón króna. Þetta treysta þeir sjer til að láta af hendi. Og eftir því ætti ekki að veita erfitt að ná saman jafnri fjárhæð, ef allir landsmenn leggja saman, eins og hugsað er. það má vera, að þetta geti ekki orðið strax á næstu árum, en þrátt fyrir það er fyllilega rjettmætt að halda málinu vakandi og glæða áhuga manna fyrir því.

Jeg hefi áður bent á það, að ef til vill yrðu mestir örðugleikar fyrir ríkissjóð að leggja fram þann hluta stofnfjár verksmiðjunnar, sem gert hefir verið ráð fyrir, að hann legði fram. Jeg hefi líka áður bent á leið í þessu atriði, sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) þótti raunar lítilsverð. Jeg á þar við eignir gamla Iðunnarfjelagsins, sem mjer þykir líklegt, að hægt mundi að fá inn í þetta fyrirtæki. En það munar allmiklu.

Þá álít jeg það hinn mesta stuðning fyrir þetta mál, að enskur fagmaður hefir talið það arðvænlegt, og látið á sjer skilja, að fást mundi frá Englandi fje til verksmiðjunnar alt að þriðjungi stofnkostnaðar, eða hálf miljón. Jeg teldi illa farið, ef dráttur á framkvæmd þessa máls yrði til þess að þetta fje fengist ekki, og er sjálfsagt að rannsaka það nánar og reyna að fá fulla vissu í því eini og helst loforð fyrir fjenu, þó eitthvað kynni enn að dragast stolnun verksmiðjunnar.

Hv. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að skoðanamunur milli sín og okkar flm. till. væri ekki mikill. Jú. Hann er mikill. Og hann liggur í því, að við teljum þegar fullsannað, að smærri verksmiðjur úti um land geti ekki borið sig. Alt frá dögum Skúla fógeta og „innrjettinganna“ hefir reynslan orðið sú, að slík fyrirtæki hafa fallið um sjálf sig. Jeg taldi upp nokkur slík fyrirtæki við fyrri umr. og leyfi mjer að vísa til þess. Þetta er líka mjög eðlilegt. Allur rekstur verður miklu ódýrari við eina stóra verksmiðju, sem altaf starfar, heldur en við margar smáar, sem ekki starfa nema part úr árinu, auk þess sem undirbúningskostnaður er þar meiri, hlutfallslega. Eins er álit nefndarinnar, að þeir staðir sjeu tiltölulega fáir, þar sem hægt sje að koma slíkum fyrirtækjum á stofn, nema með feikilega miklum kostnaði. Þegar það er athugað, hvað það kostaði að rafhita og raflýsa eitt sveitaheimili norður í Hrútafirði: 40 þús. kr., þá skilst mönnum, hvað það er miklu dýrara að fást við slík smáfyrirtæki heldur en hin stærri. Hjer liggur skoðanamunurinn.

Jeg vænti, að hv. þdm. samþykki till. okkar flm. En hjer verður líka að athuga það, að ef nú ætti að fara að rannsaka úti um land, eins og nefndin gerði 1922, þá er óhugsandi, að það verði gert fyrir ekki neitt. Þótt vinnan yrði ókeypis, þá hlyti í öllu falli að þurfa að greiða ferðakostnað o. s. frv. Þannig bættist stórfje ofan á það stórfje, sem þegar er búið að eyða í þær rannsóknir.