06.05.1924
Neðri deild: 66. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í D-deild Alþingistíðinda. (3409)

141. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Jón Baldvinsson:

Það lítur ekki út fyrir, að það ætli að verða eins miklar umr. um þetta mál nú og í fyrra, á síðasta þingi, og jeg ætla ekki heldur að gefa tilefni til þess, að langar umr. spinnist út af orðum mínum.

Það lítur nú út fyrir, að Íslandsbanki muni að einhverju leyti vera kominn yfir það versta, og vil jeg því nota tækifærið til að slá því föstu, að þessi batnandi hagur bankans stafar af því, að nógu snemma komu fram aðfinslur við stjórn bankans og starfsemi hans, sem gert hafa það að verkum, að banka- og ríkisstjórnir hafa farið að sjá að sjer. Það eru aðfinslurnar, sem komu fram gegn bankanum 1920, sem hafa orðið til þess, að aðstandendur bankans hafa óbeinlínis orðið að viðurkenna, að ekki mátti lengur halda áfram á sömu braut, og því hefir verið farið varlegar í öllu síðan. Um þetta væri að vísu ekki nema gott eitt að segja, þótt varlegar og skynsamlegar væri farið með stjórn bankans, ef þá væri ekki einmitt um leið gengið of nærri hagsmunum landsmanna til að rjetta við hag bankans. En það er aðallega tvent, sem gert hefir verið til að rjetta við hag bankans; gengi íslensku krónunnar hefir verið felt stórkostlega, og forvextir hafa gífurlega verið hækkaðir. En þetta hvorttveggja bitnar mjög hastarlega á öllum þorra landsmanna. Þó að stöðugt sje talað um það, að bankamir tapi reikningslega á gengislækkuninni, þá hefir þó verið sýnt fram á, að óbeinlínis hefir bankinn hag af gengisfallinu. Því að einmitt gengisfall peninga okkar gerir mörgum stærstu skuldunautum bankans mögulegt að standa í skilum, eða jafnvel að greiða skuldir sínar með öllu. En lággengið er sjerstaklega skaðlegt verkalýðnum í landinu, sem tekur verkkaup sitt í peningum; kemur það því harðast niður, þar sem erfiðast er að standast fjárrýrnunina.

Þá hefir það og upplýst við þessar umræður, að trygging sú, sem bankinn setur fyrir þeim hluta enska lánsins, er hann fjekk, eru víxlar, og að nafnverð þeirra er nokkrum miljónum króna lægra en lánshlutinn. Þetta er að minsta kosti öfug aðferð við þá, sem bankarnir nota. Þeir lána ekki fult nafnverð út á verðbrjef þau, sem þeir taka að handveði fyrir lánum, hvað þá hærra. Nei, það er með þessu, eins og ávalt hefir verið gagnvart Íslandsbanka, sýnt, að allar stjórnir þessa lands hafa ávalt dregið taum þessa banka. Og það væri í raun og veru ekkert við þessu að segja, ef ekki hefði í þessu meðhaldi hagur bankans þráfaldlega verið tekinn fram yfir hag landsins og landsmanna, svo sem enn er gert með því að fella gengi íslenskra peninga og hækka vexti af lánum til landsmanna, til þess að bankinn geti á kostnað landsmanna unnið upp hið stórkostlega tap, sem orðið hefir fyrir mistök á stjórn bankans á undangengnum árum.

Það þarf ekki að vera rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að lánið til bankans sje betur trygt en þó að því fje hefði verið varið til hlutabrjefakaupa í Íslandsbanka. Því að ef tekin hefðu verið forgangshlutabrjef, sem oft var um talað, þá hefði alt annað hlutafje bankans staðið sem trygging fyrir þeim forgangshlutum, sem ríkið keypti. Jeg viðurkenni því ekki, að þetta sje rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ). (Atvrh. MG: Er þetta svo að skilja, að forgangshlutabrjefin sjeu betur trygð en handveð?) Já, það getur hæglega verið. (Atvrh. MG: Þetta er afskaplegur misskilningur.) Nei, ef keypt hefðu verið forgangshlutabrjef, þá mundi tapið fyrst ganga út yfir hin almennu hlutabrjef. (Atvrh. MG: Heldur hv. þm., að hlutabrjef, þótt forgangshlutabrjef sjeu, verði látin ganga fyrir skuldum bankans?) Eftir því sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagðist frá, er sú skipun, sem gerð hefir verið á þessu, í engu tryggari en það, sem jeg hefi bent á. Og jeg geri ekki ráð fyrir, að um hlutabrjefakaupin þurfi að deila framar, þar sem það mun vera úr sögunni.

En það, sem jeg vildi láta koma hjer fram við þessar umræður, var það, sem jeg mintist á í upphafi máls míns, sem sje að slá því föstu, að fyrir þær aðfinslur, sem fram komu, þegar ólagið á bankanum vitnaðist, hefir vonandi tekist að fleyta bankanum fram yfir verstu vandræðin, en að vísu á mjög harðneskjulegan hátt fyrir þjóðina.