19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (3472)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg fjekk auðvitað ekki full svör hjá hæstv. atvrh. (KlJ), heldur aðeins þau sömu svörin, sem hann hefir áður látið uppi, þ. e., að hann teldi öllum innlendum mönnum heimilt að taka erlend fiskiskip á leigu. Jeg býst ekki við, að öll stjórnin sje á einu máli í þessu efni, og auk þess þykist jeg hafa ástæðu til að ætla, að meginþorri lögfræðinga vorra sje á alveg gagnstæðri skoðun. Jeg ætla í þetta sinn að beina annari spurningu til hæstv. atvrh., sem jeg vænti að hann svari þegar og alveg afdráttarlaust. Spurning mín er sú, hvort það sje satt, að hann hafi gefið erlendum ræðismanni skriflega yfirlýsingu um þennan skilning sinn á fiskiveiðalöggjöfinni og hvort ekki megi álykta, að einmitt af þeirri yfirlýsingu hans sje þegar hafinn undirbúningur undir atvinnurekstur útlendinga í stórum stíl.

Hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) sagði áðan, að þetta væru hinar eðlilegu afleiðingar af neitun þingsins á undanþágunni frá fiskiveiðalöggjöfinni. Hann hjelt því fram, að bæði neitunin og neyðin í Hafnarfirði ræki menn til undanbragða frá lögunum, og að það, sem nú gerðist í Hafnarfirði, væru undanbrögð. Þessi hv. þm. er kunnur að hreinskilni og drengskap, og þykir mjer því vænt um þetta álit hans. En jeg vona, að eigi sje hægt að hafa undanbrögð í þessu stórmáli, nema með því móti, að stjórnin sjái gegnum fingur við þá, sem undanbrögðin hafa í frammi, eða jafnvel samþykki þau.

Háttv. þm. sagði, að það munaði ekki um það, þó að hjer bættust við 5–10 togarar árlega, en hann má muna, að árin 1919 og 1920 jukum við skipastól okkar of mikið, og fór þá svo, að okkur vantaði markað fyrir fiskinn. Afleiðingin varð og auðsæ í því, að fiskverðið lækkaði stórkostlega. Hitt skal jeg fúslega játa, að þessi undanþága, sem hv. 1. þm. G.-K. fór fram á í frv. sínu nú í byrjun þessa þings, hefði eigi haft svo mikil áhrif á markaðinn, vegna þess, að fiskurinn, sem aflast hefði, mundi hafa verið fluttur beina leið til Ítalíu, hvort sem skipin hafa stöð hjer eða annarsstaðar. En afleiðing þessarar undanþágu hefði orðið sú, að eigi hefði orðið hjá því komist að veita fleiri þjóðum sömu hlunnindi, og þess vegna var hún ekki veitt.