17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1204 í B-deild Alþingistíðinda. (446)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Hákon Kristófersson:

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) furðaði sig á því, hversu nægjusamur jeg væri. Þessi nægjusemi kemur ekki af því, að jeg þurfi að svæfa samviskuna, því að hún er nú sem fyr vel vakandi og laus við ásakanir til mín. En jeg hafði leitað fyrir mjer um undirtektir hv. þm. undir brtt. á þskj. 150, sem jeg kysi helst að yrði samþykt eins og hún liggur fyrir, og komst jeg að raun um, að hún mundi ekki hafa nægilegt fylgi. Tók jeg því þann kostinn, sem jeg hefi jafnan fyrir reglu, að taka það næstbesta, þegar hið besta er ófáanlegt, og svo koll af kolli. Hinsvegar geta hv. þm. ráðið við sig, hvort þeir kjósa heldur að fylgja skriflegu brtt. eða brtt. á þskj. 150. Eins og jeg hefi tekið fram áður, geng jeg ekki þess dulinn, hvílík nauðsynjavara sykurinn er, en þar sem jeg veit, að brtt. um að taka hann undan mun ekki verða samþykt, vil jeg þó reyna að undanþiggja kornvörur, sem ekki leikur á tveim tungum, að eru nauðsynlegar öllum mönnum.