19.02.1924
Neðri deild: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Bjarni Jónsson:

Mjer finst ekki, að jeg þurfi nokkurrar afsökunar að biðja, þó að jeg leyfi mjer að ræða um þetta mál og önnur við 1. umræðu. Það er góður siður, að þingið fjalli um málin áður en þau fara í nefndir, því svo skýrast þau best, og vjer erum hingað sendir til að láta ljós vor skína, en ekki til þess að setja þau undir mæliker.

Um frv. þetta er það að segja, að kynlega má það koma mönnum fyrir sjónir, að hæstv. stjórn skuli á ný leggja það fyrir þingið. Með svo maklegum hætti var þetta afmentunarfrv. drepið í fyrra. Það er fært fram, að þetta miði til sparnaðar, en jeg hefi þó sýnt fram á, að það geti aðeins sparað ríkissjóði þá upphæð, sem er mismunurinn á launum sæmilegs aðstoðarmanns og yfirvarðar, því að það er augljóst, að mannafækkun við söfnin verður ekki við komið. Svo umfangsmikið starf og ósamkynja er yfirstjórn beggja safnanna, að einum manni verður það altaf ofvaxið, nema hann geri það illa. Þannig væri Alþingi að gera sjer leik að því að ætla einum manni tveggja manna starf. Með því móti væri ekki annars von en geymsla safnanna og öll afgreiðsla færi í handaskolum. Og kynni sumum ef til vill að þykja lítið til koma sparnaðarins, ef svo færi, að t. d. dýrmæt skjöl og ómetanleg færu forgörðum fyrir vöntun á stjórn. Því að slíka hluti geyma þessi söfn, að þeir fást ekki aftur fyrir nokkurt verð. Jeg ætla þó ekki að fjölyrða um þetta frekar nú, en lofa hv. þingheimi því, að jeg mun ekki sitja þegjandi hjá, er mál þetta kemur úr nefnd, ef það fer þangað. Mun jeg firra mig vítum með því að leggjast móti frv., sem ekki einu sinni miðar til sparnaðar, heldur hins mesta ógagns og teflir tveim dýrmætum söfnum í tvísýnu. Og vel mætti hið háa Alþingi muna svo vel sóma sinn, að það leiddi hjá sjer að gera óvirðingu og sýna vantraust þeim manni, er næst stendur til að taka við yfirstjórn safnsins, en á annan hátt getur frv. þetta ekki skilist.