19.02.1924
Neðri deild: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

6. mál, sameining yfirskjalavarðarembættis og landsbókavarðarembættis

Jón Þorláksson:

Út af þeim ummælum hæstv. forsrh. (SE), að hann vildi grenslast eftir innan þingflokkanna, hvort önnur embættasamsteypufrv., sem stjórnin bar fram í fyrra, en fengu þá ekki framgang, myndu nú fá fylgi í þinginu, þá vil jeg taka það fram, að mjer sýndist eðlilegt, að stjórnarforsetinn leitaði fyrst fyrir sjer innan þess þingflokks, sem hann telst til og sem hann að sjálfsögðu styðst mest við, um það, hverjum slíkra frv. flokkurinn væri fylgjandi, og bæri þá það fram, sem flokkurinn vildi styðja. En nú finst mjer ekki blása byrlega fyrir honum, þegar fyrsta frv. af þessu tægi sætir þegar í stað andmælum frá einum flokksbræðra hans. En jeg er ekki viss um, að aðrir þingflokkar telji hann rjett kjörinn til þess að bera fram úr stjórnarsessi þau mál, sem þeir kunna að vera samþykkir, en sem flokkur hv. stjórnarforseta sjálfs er andvígur.