14.04.1924
Neðri deild: 50. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

5. mál, vegalög

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg ætla fyrst með örfáum orðum að minna á aðdraganda þessa máls. Þegar síðast voru sett almenn vegalög, þá voru fyrstu vegalögin, sem gerðu ráð fyrir akbrautum, 12 ára gömul. Með þessum fyrstu lögum var gengið inn á þá rjettu braut, að leggja akvegi út frá helstu kaupstöðunum og í annan stað að leggja samanhangandi reiðfæran veg fram með ströndunum og milli landshlutanna og þannig, að þeir fjellu saman með aðalpóstleiðunum. En það kom brátt í ljós, að allir þessir vegir þurftu mikið viðhald, og þá fóru samtímis raddir að koma fram um það, að ekki væri nema rjett, að þau hjeruð, sem fengið höfðu þessar brautir gefins, hjeldu þeim að minsta kosti við. Um þetta voru engin ákvæði í elstu vegalögunum, en kröfurnar um þetta á þingi urðu æ háværari, komu fram bæði 1903 og 1905, og samkvæmt þeim var það ákvæði sett inn í stjórnarfrv. til vegalaga 1907, að leggja viðhald flutningabrautanna á hlutaðeigandi sýslufjelög. Þetta þótti öllum sanngjarnt, bæði þeim, sem þegar höfðu fengið vegina, og eins hinum. Síðan hafa tímarnir liðið og vegagerðir mjög aukist, uns dýrtíðin og fjárhagsörðugleikarnir hafa tekið fyrir allar slíkar framkvæmdir. Nú er því svo, að einstökum brautum og flutningabrautum samkvæmt lögum 1907 er raunar ekki lokið, en vel á veg komið. En viðhald veganna hefir reynst sýslufjelögunum of þungbært, ekki síst vegna þess, að kröfurnar hafa aukist mjög á síðari tímum; og hjeruðin því kostað miklu til að koma akvegum heim upp í sveitirnar út frá brautunum, enda er nú svo komið, að í mörgum hjeruðum er akfært orðið heim á hvern bæ. Menn hafa því fundið til þess, að ný ráð þyrfti að finna til að gera sýslufjelögum kleift að standast kostnaðinn af vegaviðhaldinu. Það er þó ekki fyrri en nýlega, að nokkuð hefir verið gert til að fá sýslunum nýja tekjustofna í þessu augnamiði. Á jeg þar við lög um sýsluvegasjóði, sem samþykt voru á síðasta Alþingi. Sýslufjelögunum var ekki fenginn neinn tekjustofn til að standast viðhaldskostnaðinn og annan vegakostnað. Út af þessu reis smámsaman mikil óánægja og hjeruðin báru fram rjettmætar óskir um að byrðinni yrði ljett af sýslusjóðunum. Þetta var svo gert með lögum frá 1923, um sýsluvegasjóði. Þessi lög búa svo um hnútana, að ef vegamálakostnaðurinn hjá einhverju sýslufjelagi verður of mikill í hlutfalli við fólksfjölda, þá kemur sjálfkrafa fram tillag úr ríkissjóði, sem fyrirbyggir, að kostnaðurinn verði sýslubúum of þungur.

Þegar þetta ákvæði laganna var sett, var það miðað við þau fyrirmæli laganna óbreytt, sem nú gilda um viðhaldsskyldu. Mætti þá líka ætla, að búið væri að ganga frá málinu til fulls, þegar sýslusjóðir geta fengið nóg tillag úr ríkissjóði til að fyrirbyggja, að gjöldin til veganna verði þeim um megn.

Nú er þó nýtt frv. hjer á ferðinni, sem gerir gagngerða breyting á viðhaldsskyldunni, þar sem hún að því leyti, sem til flestallra flutningabrauta kemur, er lögð á ríkissjóð. Eins er bætt við ýmsum nýjum þjóðvegaköflum og viðhald þeirra hvílir alveg á ríkissjóði, hvort sem þeir eru akfærir eða ekki. Því það ákvæði eitt gildir um akfæra þjóðvegi í bygð, að heimilt er að afhenda þá sýslufjelögum til viðhalds, en sú heimild hefir aldrei verið notuð, og stendur þetta því svo, að viðhaldsskyldan hvílir öll á ríkissjóði.

Jeg verð að segja það, að þegar um svo stórfelda breytingu er að ræða á máli, sem búið er að skipa til fulls áður og á þann hátt, sem vel er viðunandi fyrir alla aðilja, þá hefði maður mátt vænta þess, að annaðhvort frá stjórnarinnar hálfu eða af hlutaðeigandi nefnd hefði verið gerð ítarleg grein fyrir fjárhagsástæðum þeim, sem gera breytinguna nauðsynlega; að gerð hefði verið grein fyrir, hve miklu væri á þennan hátt ljett af hjeruðunum og hvað miklu bætt á ríkissjóð. En það er svo grandvart, að nokkrar slíkar tölur sjeu sjáanlegar, þó að það hefði verið fyrsta og sjálfsagðasta skyldan að koma með þær. Stingur þetta mjög í stúf við greinargerð nýnefndra laga frá 1923, því að þeim fylgdi ítarleg greinargerð um það, hver vegakostnaður sýslufjelaganna yrði, hve mikið þau myndu þurfa á sig að leggja, hvað ríkissjóður þyrfti að borga til þess að sú skipun, sem nú er um viðhaldsskylduna. gæti haldist.

Jeg get sagt það, að ef nóg fje væri til í ríkissjóði og tekjur hans miklar, svo að ekki þyrfti að viðhafa fylstu aðgæslu í hverju atriði, þá væri ef til vill verjandi að samþykkja svo stórfeldan lagabálk sem þessi er, án þess að sjeð yrði, hver áhrif hann hefði á útgjöld ríkissjóðs. En þar sem vitanlegt er, að ríkissjóður getur naumlega staðið í skilum við lánardrottna sína og allsendis er ósjeð, hvort tekjuauki sá, sem þetta þing hefir á komið, geti hrokkið fyrir því, sem á vantar til að greiða væntanleg útgjöld, þá finst mjer óverjandi að samþykkja lagabálk, sem gerir eins víðtækar breytingar á vegaskyldunum og frv. þetta gerir og hefir fyrirsjáanlega afarmikil útgjöld í för með sjer. Sje jeg því ekki, að hægt verði að afgreiða málið að svo stöddu, enda finst mjer lítill skaði skeður, þó að það biði til næsta þings og nýju lögin fengju að reyna sig fyrst í 1–2 ár.

Mjer er það vel ljóst, að mjög margir hv. þm. í þessari hv. deild hafa hagsmuna að gæta fyrir hjeruð sín þar sem þetta frv. er. Og að kjósendum þeirra þættu það góðar frjettir, ef þeir flyttu þeim þau tíðindi, að nú væru þeir lausir við viðhald þessa og þessa vegarkafla, sem á þeim hvílir. En jeg sje ekki betur en að það sje í fylsta ósamræmi við varfærni þá í fjármálum, sem þessi háttv. deild hefir sýnt á þessu þingi, ef hún samþykkir nú lagabálk án þess að athuga, hver áhrif hann hefir á fjárhaginn — já, veit, að hann verður ríkissjóði dýr, að minsta kosti fyrstu árin.

Um frv. sjálft eða brtt. ætla jeg ekki að fjölyrða, en jeg sakna þó eins ákvæðis í frv., og það af þeirri ástæðu, að gerðar eru þó nokkrar breytingar á núverandi þjóðvegum. Jeg sakna þess, að ekki er tekið fram, að ríkissjóður kosti viðhald þeirra þjóðvega, sem nú eru, uns nýir hafa verið lagðir á öðrum stað, því þó að þetta sje tekið fram í 2. gr. C., snertir það aðeins einn þjóðveg á Norðurlandi, sem vitanlega verður vegna kostnaðarins ekki lagður fyrst um sinn, þá vantar, að það sje tekið fram alment. Því vitanlega á að gera fleiri breytingar á þjóðvegunum. Jeg skal nefna eina; það er stórbreyting á Borgarfjarðarveginum, sem mun kosta 176 þús. kr., og sje jeg ekki, að það fari vel á því, að viðhald gamla vegarins falli niður áður en sú breyting kemst á.

Jeg get bent á fleiri breytingar, sem eru athugaverðar, sjerstaklega breytinguna á þjóðveginum í Strandasýslu. Þar á að sleppa kafla, svo nefndum Krossárdalsvegi, sem liggur milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar, og þjóðvegurinn á að flytjast norður í Strandasýslu. En vegurinn um Krossárdal var einmitt lagður fyrir ítrekaðar og ákveðnar óskir hjeraðsbúa og miklu hefir þegar verið til hans varið, eins og þeir vita, sem kunnugir eru fjárlögum síðustu ára. Nú á alt að falla niður, sem búið er að gera, en það er mikill hluti vegarins milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar, þó að hann sje ekki fullgerður. Gæti sá hagnaður orkað tvímælis, og skal jeg þó ekki fullyrða um það frekar.

Um aðra breyting, sem gerð var á frv. í háttv. Ed. og snertir veginn í Vestur- Húnavatnssýslu, vil jeg segja það, að sú breyting mun að vísu draga úr kostnaði ríkissjóðs við vegagerð þar, en bjarnargreiði virðist þar með gerður hjeraðsmönnum, því jeg þykist þess fullviss, að eins og frv. er nú orðið í þessu atriði, þá mun það útiloka, að í sýslunni komist á samtengt akvegakerfi, því að þjóðvegurinn sem stofnbraut liggur þá ekki þar, sem kleift er að koma akvegum frá honum til allra bygða og um þær. En jeg get sagt það, að allan þann tíma, sem jeg var við vegamál riðinn, þá hafði jeg það fyrst og fremst fyrir augum við sjerhverja vegagerð, sem ríkissjóður lagði fje til, að hlutaðeigandi vegarkafli gæti komið sem eðlilegur liður, helst sem stofnbraut, í vegakerfinu innanhjeraðs, enda er það eina ráðið til þess að koma á fullkomnu vegakerfi.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um málið við þessa umr., því að jeg tel það ótímabært, að það sje afgreitt nú á þessu þingi. En ef annað verður ofan á í hv. deild, mun jeg bera fram brtt. um þennan veg í Vestur-Húnavatnssýslu, sem fer aðeins í þá átt, að ekki sje ákveðið nú þegar, hvar þjóðbrautin liggi, heldur gefið frjálst til seinni ákvörðunar; enda er um svo stuttan kafla að ræða, að þýðingarlaust er að hafa svo nákvæma leiðarlýsing lagagreinar til að fara eftir.

En jeg tel það fylstu skyldu mína að benda mönnum á, að fjárhagshlið málsins, sú er snýr að ríkissjóði, er órannsökuð, og meðan svo er, tel jeg óverjandi að hrapa að því að afgreiða málið.