28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1405 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

5. mál, vegalög

Ágúst Flygenring:

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með brtt. við vegalagafrv., sem er þess efnis, að Reykjanesbrautin, sem nú er talin enda í Keflavík, verði látin enda í Sandgerði. Braut þessi var bygð af hreppavega-, sýslu- og landssjóðsfje, og er eina brautin, sem liggur fram á Skagann. Er ekki hægt að telja, að í Keflavík sje nein endastöð fyrir slíka braut. Væri miklu nær, að hún hefði þá verið í Garðinum, en þar, sem liggur beinast við, að endastöðin sje, er vitanlega í Sandgerði, því að þar er þegar komin allmikil útgerðarstöð, sem án efa á eftir að vaxa allmikið ennþá, en þangað er ennþá ekki hægt að komast með vagna. Með þá er ekki hægt að komast lengra en að Útskálum. Jeg verð því að telja, að það hafi verið af gleymsku, að í þessu vegalagafrv. skuli brautinni ekki vera ætlað að ná a. m. k. til Útskála, — út í Garðinn, það sem hún nú nær, en vitanlega á hún og þarf hún að ná til Sandgerðis.

Sem dæmi þess, hve vegur þessi er nauðsynlegur, má nefna, að oft kemur fyrir — og síðast í vetur — að fluttur er fiskur landleiðina frá Grindavík og Keflavík og Garði til Hafnarfjarðar. Hefir mikið af þessum fiski nú jafnóðum verið flutt til útlanda. En frá Sandgerði er engin leið að koma slíku við, sökum vegleysis. Hið sama er að segja um ýmsan annan flutning. Í sömu vandræðunum væri Garðurinn líka, ef vegurinn frá Keflavík til Útskála hefði ekki verið lagður. En þessi vegur var lagður mest fyrir sjerstakan dugnað og áhuga einstakra manna í Gerðahreppi. Jeg leyfi mjer því að mælast til, að brtt. mín verði samþykt, því eins og háttv. þm. Mýramanna tók fram, á Gullbringusýsla mikinn rjett á að fá fje úr ríkissjóði til vegalagninga í hlutfalli við önnur hjeruð landsins, og það meira fje en kostar að leggja spottann milli Útskála og Sandgerðis. Það er líka vert að athuga það, að vegurinn milli Keflavíkur og Útskála var bygður að hálfu leyti af framlagi frá hjeraðinu, og til þess að koma honum í framkvæmd, lánuðu Garðbúar landssjóði af fátækt sinni 6000 kr., sem þeir eru búnir að eiga hjá honum nú í 4 ár. Jeg nefni þetta ekki af því, að jeg búist við, að þeir fái þetta ekki borgað aftur, heldur til þess að sýna áhuga þeirra; þeir skilja, hve afarmikla þýðingu þessi vegur hefir fyrir hjeraðið. Fje þetta var fengið með prívatlánum, og var ætlast til, að það yrði borgað strax, en vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs hefir það dregist. Fyrir þessu liggja skilríki hjá vegamálastjóra. Vegur þessi kostaði um 80 þús. kr., en hefir því miður ekki verið haldið nægilega vel við, sem stafað hefir af fjárhagsörðugleikum hjeraðsins, því að hið dýra viðhald hefir reynst þeim um megn. Er því öll sanngirni, sem mælir með því, að þessi kafli sje tekinn upp í tölu þjóðvega, því að á því ríður, að vegunum sje vel viðhaldið, svo þeir stóreyðileggi ekki þau farartæki, sem um þá fara. Það er í sjálfu sjer stórt fjárhagslegt tap. Má í þessu sambandi benda á veginn upp Mosfellssveitina, sem Dýraverndunarfjelagið sjer sjer ekki annað fært en að loka, af því að ekki sje forsvaranlegt að fara með skepnur eftir honum. Hve háskalegt slíkt hirðuleysi með vegina er, hljóta allir að sjá, þar sem það er sannleikur, sem ekki verður um deilt, að vegirnir eru jafnnauðsynlegir fyrir þjóðfjelagið eins og æðarnar fyrir líkamann. Bæði þessi sveit hjer fyrir ofan, og þá ekki síður sveitirnar með sunnanverðum Faxaflóa, lifa beinlínis á vegunum; þeir eru skilyrðið fyrir því, að þær fái seldar afurðir sínar jafnóðum og fyrir gott verð alt árið. Hefi jeg nú leitt rök að því, að nauðsyn sje á, að vegunum sje svo viðhaldið, að ekki geti staðið tjón af þeim fyrir skepnur og tæki, sem um þá fara, og að þeim sje haldið í akfæru standi.

Þó jeg geri nú ráð fyrir, að vegarspottinn frá Útskálum til Sandgerðis kosti ekki mjög mikið fje, býst jeg þó við, að hann kosti svo mikið, að hrepparnir og sýslan sjeu ekki fær um að leggja fram það fje; slíkur kostnaður er sýslunni, sem er stórskuldug undir, alveg ókleifur. Eru það því tilmæli mín til hv. deildar, að hún samþykki brtt. mína.