02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

5. mál, vegalög

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eftir ósk hæstv. fjrh. var þetta mál tekið af dagskrá í gær, til þess að samgmn. gæti kynt sjer yfirlit frá vegamálastjóra og fjrh. yfir aukinn kostnað, sem frv. þetta hefði í för með sjer fyrir ríkissjóð við viðhald vega. Nefndinni var kunnugt um þann kostnaðarauka áður, og nefndin vill samþykkja frv. þrátt fyrir þennan kostnaðarauka. Vegamálastjóri álítur, að kostnaðarauki ríkissjóðs muni nema um 22 þús. kr. árlega, og er þá vitanlega miðað við það, að sýslufjelögin beri þann hluta kostnaðarins, sem þeim samkv. gildandi lögum er ætlað að bera. En þegar þess er gætt, að ríkissjóður mundi hvort sem er verða að kosta viðhald Holtavegarins og fleiri vega, þá er það sýnilegt, að hinn raunverulegi mismunur verður miklu minni. En hjer er auðvitað aðeins um áætlun að ræða hjá vegamálastjóra.

Hæstv. fjrh. hefir gert annað yfirlit, og eftir því nemur kostnaðurinn um 14 þús. kr. Þessa útkomu fær hæstv. fjrh. með því að gera ráð fyrir því, að viðhald Stykkishólmsvegarins verði lagt á sýsluna. En hæstv. fjrh. gerir enga grein fyrir því, hvers vegna hann tekur þennan eina veg út úr, og nefndin getur ekki sjeð neina ástæðu til þess, að viðhald þessa vegar verði lagt á sýsluna, og þess vegna má draga þá upphæð, sem snertir þann veg, frá þeim kostnaðarreikningi, er hæstv. fjrh. hefir gert. Frá þessari áætlun hæstv. fjrh. má ennfremur draga kostnaðinn af viðhaldi Holtavegarins, því að bæði hæstv. fjrh. sjálfur og aðrir líta svo á, að sýslunum sje ofvaxið að annast viðhald hans. Það hefir margsinnis verið tekið fram undir umræðum þessa máls, bæði af hæstv. fjrh. og öðrum, að mikill kostnaður sje lagður á ríkissjóð með frv. þessu og að fjárhagur ríkissjóðs sje erfiður, og nefndin viðurkennir fyllilega, að svo sje. Afleiðingin af samþykt frv. verður því, meðan svo er ástatt, sem nú er, að vera sú, að til nýrra vegalagninga verði þeim mun minna fje veitt úr ríkissjóði, sem honum eykst kostnaður af viðhaldi þeirra vega, sem þegar eru lagðir.

Jeg sje svo ekki þörf á að gera frekar grein fyrir skoðun nefndarinnar í þessu máli. Jeg skal aðeins taka það fram, að skoðun hennar er með öllu óbreytt eftir að hafa kynt sjer þessa útreikninga vegamálastjóra og hæstv. fjrh. Leggur nefndin til, að hv. deild samþykki frv.