19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

100. mál, verðtollur

Frsm. (Jakob Möller):

Það var ekki mikið um það rætt í nefndinni, og skildist mjer vera samkomulag um það, að ekki væri mjög brýn þörf á því, að þessi 2 frv. yrðu samferða. Það liggur í hlutarins eðli, að verði frv. á þskj. 88 samþykt í svipaðri mynd, sem það er í nú, þá takmarkar það vitanlega þetta frv.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) tók það rjettilega fram, sem mjer láðist að leggja sjerstaka áherslu á, að jafnhár verðtollur hefir vitanlega svipuð áhrif sem innflutningsbann, og mætti þá ætla, að ýmsir gætu fallist á, sem annars vilja fara bannleiðina, að hverfa að þessu til þess að ná sama árangri. Jeg heyrði, að hv. 1. þm. S.-M. efaðist ekki um, að með þessu móti mundi nást mikil takmörkun á innflutningi. En jeg er ekki samdóma honum í því, að heppilegt sje að banna alveg sumar vörutegundir. Það eru sömu líkur til þess, að svíkja megi vörur undan banni sem undan tolli, og þó öllu meiri. Hv. þm. kvað mega tollsvíkja vörur í skjóli þeirra, sem löglega væru fluttar inn, en verði þær algerlega bannaðar, komast þær algerlega undan tolli, en þó má flytja þær inn í skjóli þess varnings, sem leyfður er.

Jeg sje ekki ástæðu til að blanda því inn í þessar umræður, því að nóg tækifæri munu vera til þess í sambandi við haftafrv., en jeg geri mjer ekki miklar vonir um, að það frv. hafi þau áhrif, sem hv. 1. þm. S.-M. bjóst við, sem sje almennan sparnað. Í fyrsta lagi er með því frv. ekki stefnt til almenns sparnaðar, svo sem tekið var fram við 1. umr. þess máls. Það er stofnað til þess að taka ákveðnar vörur frá mönnum, svo að þeir geti ekki eytt fje sínu í þær, en það kemur ekki í veg fyrir, að þeir eyði því í annan óþarfa. En það er augljóst, að mikil tollhækkun tryggir það, að minna verði keypt, svo framarlega sem kaupgeta manna er takmörkum háð. Með þessu frv. er það trygt, að alt landið sparar, en með hinu er ekki trygt að neinn spari, hvorki landið nje einstakir menn. Þetta frv. stefnir því meir til sparnaðar en frv. um innflutningsbann.

Jeg skal að svo stöddu ekki stofna til frekari umræðna, þar sem minni hlutinn vill greiða götu frv. til 2. umr., og má geyma frekari athugasemdir þangað til.